Lífið

Saltbreiður í sundlaugunum

Gróft salt er það eina sem hefur virkað á hálkumyndun á bökkum Laugardalslaugarinnar.
Gróft salt er það eina sem hefur virkað á hálkumyndun á bökkum Laugardalslaugarinnar. MYND/Rósa

Kuldakastið sem riðið hefur yfir landið undanfarna daga hefur væntanlega aftrað einhverjum frá sundferðum. Þeir sem lagt hafa leið sína í Laugardalslaugina hafa hins vegar þurft að eiga við miklar, grófar saltbreiður á bökkunum, sem eiga að koma í veg fyrir hálkumyndun en eru varla til þess að gera sundferðina þægilegri.

„Maður þarf helst að vera góður fakír í þessu,“ sagði Logi Sigurfinnsson, forstöðumaður Laugardalslaugar. „Grófa saltið, sem er eins og grjót að ganga á, er það eina sem hefur dugað hingað til. Hálkumyndunin er ótrúleg, vatnið frýs alveg um leið,“ sagði hann. Starfsfólk laugarinnar stendur nú í tilraunastarfsemi með saltpækil. „Við þorum ekki að nota hann á gönguleiðirnar fyrr en við erum viss um að hann virki almennilega. Hálkan er svo lúmsk og það verða svo slæm slys af henni,“ sagði Logi, sem vonast þó til að pækillinn geti tekið við í framtíðinni. „Hann dugar á Reykjanesbrautina,“ sagði hann.

Meðan á kuldakastinu stendur mælir Logi með því að fólk hafi sundskó meðferðis í laugarnar til að geta rölt á milli potta. „Menn rölta að vísu ekki mikið í þessu veðri, það er bara sprettað á milli,“ bætti hann við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.