Erlent

Svíar taka út fangelsi stríðsglæpadómstólsins

Sænskum yfirvöldum hefur verið falið að gera úttekt á fangelsinu sem hýsti Slobodan Milosevic, fyrrverandi Júgóslavíuforseta, meðan réttað var yfir honum fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag í Hollandi. Forsetinn lést þar fyrr í þessum mánuði.

Stríðsglæpa dómstólinn hefur falið sænsku rannsóknarmönnunumað skoða allt sem tengist rekstri fangelsisins, en það er rekið samhliða dómstólnum.

Mál Slobodans Milosevic, fyrrverandi forseta Júgóslavíu, var rekið fyrir dómstólnum um nokkurt skeið og var enn til meðferðar þegar hann lést í klefa sínu laugardaginn ellefta mars. Dánarmein hans var hjartaáfall.

Talið var að einhverjir mánuðir væru enn í að dómarar kæmust að niðurstöðu í málinu. Milosevic þjáðist af of háum blóðþrýstingi og var veikur fyrir hjarta. Hann hafði óskað eftir að fá að leita aðstoðar lækna í Rússlandi en þeirri beiðni var hafnað þar sem dómurinn taldi líkegt að Milosevic myndi ekki snúa aftur þaðan þar sem kona hans, sonur og bróðir eru búsett í Rússlandi.

Í bréfi sem Milosevic sendi rússneskum yfirvöldum skömmu fyrir dauða sinn sagðist hann gruna að verið væri að eitra fyrir sér. Athuganir réttarlækna hafa ekki rennt stoðum undir þær fullyrðingar. Jafnvel var talið að hann tæki viljandi tiltekið lyf til að auka á líkurnar að honum yrði leyft að fara til Rússlands.

Skömmu áður en Milosevic lést svipti leiðtogi Króatíu-Serba, Milan Babic, sig lífi í fangaklefa sínum í sama fangelsi. Hann var þá að afplána dóm.

Miðað við atburði síðustu vikna taldi því dómstólinn rétt að fela óháðum aðila það verkefni að taka rekstur fangelsins út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×