Erlent

57 létust

Minnst fimmtíu og sjö týndu lífi þegar farþegaskip fór á hvolf rétt utan við Bahrein í Persaflóa í gærkvöld.

Hundrað og þrjátíu manns voru um borð í ferjunni, sem hvolfdi laust upp úr klukkan átta að íslenskum tíma í gærkvöldi. Ferjan var á skemmtisiglingu rétt utan við Bahrein, þegar ógæfan dundi yfir. Hún var ekki komin nema rétt röskan kílómetra frá landi þegar hún fór á hvolf. Strandgæslan var þegar send á vettvang, auk þess sem þyrlur og kafarar á vegum bandaríska hersins aðstoðuðu við björgunina.

Sextíu og sjö komust lífs af, en nokkurra er enn saknað. Þeim sem björgðust ber ekki saman um orsakir slyssins. Vitað er að of margir farþegar voru um borð og sumir segja ástæðu slyssins þá að of margir farþegar hafi safnast saman í öðrum hluta skipsins, með þeim afleiðingum að það hafi farið á hliðina. Aðrir eftirlifendur segja að stór alda hafi lent á skipinu og valdið því að það sökk. Lögregla rannsakar nú tildrög slyssins, en hvað sem öðru líður bendir í það minnsta ekkert til að um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Flestir voru farþegarnir frá Asíu, en þó voru á þriðja tug Evrópubúa um borð, og eins tuttugu farþegar frá Suður Afríku og Egyptalandi. Þrettán þeirra sem drukknuðu voru Bretar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×