Erlent

Fjöldi þorpa rústir einar

Nokkur hundruð þorp eru í rúst eftir þrjá snarpa jarðskjálfta í vesturhluta Írans í morgun. Minnst fimmtíu létust í skjálftunum og 800 slösuðust.

Upptök skjálftanna þriggja voru í fjalllendi á milli tveggja iðnaðarborga í vesturhluta Írans. Sá fyrsti var öflugastur og mældist sex á Richter. Strax á eftir komu tveir skjálftar upp á um það bil fimm.

Fjöldi lítilla þorpa er í fjöllunum þar sem upptök skjálftanna voru og mörg eru þau nánast rústir einar. Skelfingu lostnir íbúar þorpanna þustu út úr húsum sínum og margir höfðust við úti undir berum himni í nótt. Í morgun var búið að koma upp tjaldbúðum á svæðinu, þar sem

Í morgunsárið kepptust björgunarsveitarmenn og aðstandendur við að ná fólki undan húsarústum.

Íranska ríkissjónvarpið greindi frá því í morgun að miklar skemmdir hefðu orðið í meira en tvö hundruð þorpum og yfirmaður björgunarstarfsins sagði ekki færri en þrjú hundruð þorp hafa orðið illa úti í skjálftunum. Skemmdir væru mismiklar, en þar sem ástandið væri verst hefðu um níutíu prósent þorpanna eyðilagst.

Á stóru svæði í kringum upptök skjálftanna er ekkert rafmagn, auk þess sem símalínur og gasleiðslur rofnuðu.

Yfirmenn björgunarstarfs á svæðinu óttast mjög að tala látinna eigi enn eftir að hækka töluvert.

Íran er staðsett á miklu jarðhræringasvæði. Fyrir aðeins ári síðan létust meira en sex hundruð manns í jarðskjálfta í landinu og í desember 2003 týndu meira en þrjátíu þúsund manns lífi í öflugum jarðskjálfta við borgina Bam.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×