Erlent

Á þriðja tug hefur farist í hvirfilbyljum

Tuttugu og þrír hafa farist í miklum skýstrókum sem gengið hafa yfir miðvesturríki Bandaríkjanna undanfarna daga. Haglkorn á stærð við appelsínur hafa fallið af himnum og tré rifnað upp með rótum í veðurofsanum.

Hvirfilbyljir eru algengir á þessum árstíma á sléttunum miklu og í miðvesturríkjum Bandaríkjanna en þeir myndast í mjög óstöðugu lofti, gjarnan í grennd við þrumuveður eins og þeim sem geisað hafa á þessum slóðum undanfarna daga. Skýstrókarnir hafa farið um átta ríki undanfarna daga og skilið eftir sig slóð eyðileggingar. Skaðinn hefur verið mestur í Tennessee, til dæmis gjöreyðilagðist pylsugerð í bænum Newbern og beið heil tylft starfsmanna bana. Í nótt héldu svo skýstrókarnir áfram ferð sinni til Missouri og fórust þrír í hamförunum þar. Í sumum smábæjum ríkisins stendur varla steinn yfir steini.

Í Arkansas féllu haglkúlur af himnum sem sjónarvottar segja að hafi verið á stærð við appelsínur. Þyngsli þeirra voru slík að gat kom á þök hjólhýsa sem urðu fyrir barðinu á þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×