Lífið

Disney dreifir nýjustu kvikmynd Mel Gibson

Sáttur  Disney-fyrirtækið hefur vísað þeim fréttum á bug að það ætli sér ekki að dreifa mynd Mel Gibson, Apocalypto.
Sáttur Disney-fyrirtækið hefur vísað þeim fréttum á bug að það ætli sér ekki að dreifa mynd Mel Gibson, Apocalypto. MYNDGetty

Disney-fyrirtækið er hætt við að bjóða öðrum kvikmyndafyrirtækjum nýjustu kvikmynd Mel Gibson, Apocalypto. Eins og greint var frá í Fréttablaðinu stefndi allt í að fyrirtækið myndi gefa frá sér myndina eftir að Gibson var handtekinn fyrir ölvunarakstur og lét í kjölfarið hafa eftir sér niðrandi ummæli um gyðinga.

„Það er ekki rétt að hið „fjölskylduvæna“ fyrirtæki ætlaði sér að selja rétt sinn á Apocalypto vegna ummæla leikarans um gyðinga,“ sagði talsmaður Disney-fyrirtækisins. Stuðningur Disney við Gibson kemur mörgum á óvart því ekki er langt síðan sjónvarpsstöð afþreyingarveldisins, ABC, hætti við að taka þátt í gerð sjónvarpsþátta um helför gyðinga sem Gibson hefur haft á prjónunum í mörg ár.

Það virðist því loks vera farið að sjást til sólar hjá Gibson eftir að fjöldi áhrifamikilla aðila innan bandaríska kvikmyndageirans hafði nánast tekið hann af lífi í fjölmiðlum vegna ummælanna enda gyðingahatur ákaflega viðkæmt mál í Bandaríkjunum. Gibson leikur ekki sjálfur í myndinni og er reiknað með því að hann muni ekki ganga fram fyrir skjöldu þegar kemur að kynningum á myndinni.

Apocalypto fjallar um Maya-menningarveldið og skartar lítt þekktum leikurum í aðalhlutverkum. Allir leikarar tala hið forna mál Yucatec og hefur Gibson sagt hana fjalla um samfélagið og það sem haldi því saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.