Innlent

Flugvöllurinn burt og göng um Öskjuhlíð

Öskjuhlíðargöng, Sundabraut, gjaldfrjáls leikskóli og þjónustutrygging fyrir aldraða eru meðal kosningaloforða Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir komandi kosningar. Þá verði flutningur flugvallarins undirbúinn á kjörtímabilinu.

 

Framvarðasveit Samfylkingarinnar kynnti helstu stefnumál sín í dag, en rúmur mánuður er í kosningar. Flokkurinn vill færa öll málefni aldraðra til sveitarfélaganna og bæta þjónustuna við eldri borgara og ef hún dregst óeðlilega,skapist réttur til greiðslu. Dagur B. Eggertsson borgastjóraefni flokksins segir að borgarar eigi rétt á þjónustu og ef hún sé ekki eins og hún á að vera, eigi að bæta borgurum það.

Þá verður unnið að því að byggja upp 6000 íbúðir, hlúa að ýmissi þjónustu og auka samkeppni. Þá standi öllum börnum til boða íþróttir og listnám, skólar verði sjálfstæðari og á þriggja ára tímabili verði leikskólar með öllu gjaldfrjálsir. Áhersla verður lögð á forvarnir og hverfaþjónustu og samgöngur verði bættar, til dæmis með göngum í gegnum Öskjuhlíð. Dagur segir ekki liggja fyrir hvað slík göng kosta, en þau séu nú í hönnun. Og einnig Sundabraut, sem erfiðlega hefur gengið að koma áfram og reyndar er nú talað um að fresta. Dagur segir það með ólíkindum að oddviti Sjálfstæðisflokksins hafi talað um frestun. Samfylkingin vilji þvert á móti fara með Sundabrautina alla leið og hann bendir á að stór hluti fjár til vegamála komi frá höfuðborginni og því eðlilegt að fé verði varið til vegamála þar.Þá á að einfalda þjónustu þannig að kort og farsímar nýtist betur og að félag verði stofnað með ríkinu um flutning flugvallarins og þróun Vatnsmýrinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×