Innlent

Eðlilegt að gera tilkall til ráðherraembættis

Kristján Þór Júlíusson var gestur Kristjáns Más Unnarssonar í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag. Hann lætur af embætti bæjarstjóra á Akureyri innan skamms, eftir sigur hans í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í gær. Kristján Þór telur eðlilegt að oddviti flokksins í kjördæminu gegni ráðherraembætti, verði flokkurinn í stjórn að loknum kosningum.

Kristján Þór Júlíusson er nýr oddviti Sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi. Hann fékk örugga kosningu í fyrsta sætið í prófkjöri flokksins um helgina, en þingflokksformaðurinn Arnbjörg Sveinsdóttir lenti í öðru sæti og nýliðin Ólöf Nordal í því þriðja. Það liggur því fyrir að Kristján Þór hætti sem bæjarstjóri. Sjálfstæðismenn hafa ekki tekið ákvörðun um hver leysir hann af hólmi í bæjarstjórastólnum, en næstur á lista flokksins í bænum er Sigrún Björk Jakobsdóttir. Kristján Þór tekur við oddvitasætinu af Halldóri Blöndal, formanni utanríkismálanefndar, sem áður gengdi embætti samgönguráðherra og forseta Alþingis.

Kristján Þór segir að sér þyki eðlilegt að forystumaður flokksins í Norðausturkjördæmi fái ráðherraembætti. Menn séu í stjórnmálum til að komast til áhrifa. Fyrst verði flokkurinn hins vegar að ná þeim árangri í kosningum að hann verði í stöðu til að taka þátt í myndun ríkisstjórnar.

Formaður Framsóknarflokksins lýsti því yfir á miðstjórnarfundi flokksins um helgina að innrásin í Írak hafi verið mistök og ranglega staðið að ákvörðun um stuðning Íslands við hana. Sjálfstæðismenn hafa hins vegar staðið fast á því að ákvörðunin hafi verið rétt miðað við þær forsendur sem lágu að baki henni.

"Ég hef sagt það sjálfur að stuðningurinn við innrásina hafi verið mistök," sagði Kristján Þór. Það væri þannig með öll mannanna verk að það væri gott að fara yfir þau öðru hvoru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×