Erlent

Fækkar plánetunum um eina?

Reikistjörnur sólkerfisins eru níu, eða svo var að minnsta kosti talið. Leiðangur bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA alla leið til Plútó gæti hins vegar breytt skilningi á plánetunum og jafnvel orðið til þess að þeim fækki um eina.

Stundum er sagt að það sem vitað sé um Plútó sé svo lítið að það megi skrifa aftan á póstkort. Úr því ætlar ómannaða geimfarið New Horizon, eða Nýr sjóndeildarhringur, að bæta, en það lagði upp í tæplega fimm milljarða kílómetra langt ferðalag í gærkvöld til að skoða níundu reikistjörnuna. Stjörnufræðingar verða hins vegar að bíða í dágóða stund eftir að upplýsingar berist frá farinu, eða allt til ársins 2015. Á spýtunni hangir hins vegar ekki einungis að skoða Plútó heldur á að rannsaka smástirni sem eru hluti af svonefndu Kaipers-belti þar sem reikistjörnuna er einmitt að finna. Sumir hnettir beltisins eru raunar á stærð við Plútó og hafa svipuð einkenni og því vilja sumir stjörnufræðingar að skilgreiningunni á því hvað pláneta er verði breytt þar sem skilin á milli Plútós og nálægra smástirna eru orðin svo óljós.

Sverrir Guðmundsson, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, telur þó ólíklegt að reikistjörnunum fjölgi heldur gæti þing vísindamanna einfaldlega ákveðið að svipta Plútó reikistjörnunafnbót sinni.

Hann segir tillögur hafa komið fram um að stofna nýjan flokk sem mörg smástirni yrðu talin til en að alveg eins gæti raunin orðið sú að reikistjörnunum í sólkerfi okkar yrði fækkað í átta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×