Erlent

53 fórust í rútuslysi í Kasmír-héraði

Að minnsta kosti fimmtíu og þrír biðu bana þegar rúta fór út af fjallvegi í Kasmír-héraði í dag. Bílstjóri rútunnar var að taka krappa beygju í fjalllendi nærri bænum Sainganji í indverska hluta Kasmírs þegar hann missti stjórn á rútunni, með þeim afleiðingum að hún hrapaði um 120 metra niður í gljúfur. Um sjötíu manns voru um borð en einungis voru sæti fyrir fimmtíu farþega í rútunni. Fimmtán voru fluttir slasaðir á sjúkrahús og að sögn lækna er ástand þeirra allra mjög alvarlegt. Á meðal þeirra fimmtíu og þriggja sem fundust látnir í flakinu voru fimm börn.

Mörg þúsund manns látast í umferðarslysum á Indlandi á hverju ári, og má rekja orsök flestra þeirra til gáleysisaksturs, aldurs farartækjanna og slæmra vega. Þá er mjög algengt að rútur, þar sem viðhaldi er gjarnan ábótavant, séu yfirhlaðnar af farþegum eins og í þessu tilviki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×