Lífið

Þarf að minna eigendurna á eign sína

Páll Magnússon segir gömlu gufuna vera eitt besta geymda leyndarmálið í íslensku útvarpi
Páll Magnússon segir gömlu gufuna vera eitt besta geymda leyndarmálið í íslensku útvarpi

Glöggir sjónvarpsáhorfendur ráku margir hverjir upp stór augu þegar ný auglýsing frá Rás 1 rann yfir skjái landsmanna á fimmtudagskvöldinu. Hingað til hefur ekki mikið verið lagt í að auglýsa útvarpstðð allra landsmanna og má því segja að með þessari auglýsingu hafi kveðið við nýjan tón upp í Efstaleyti.

 

Kynningarstjóri Rásar 1 segir auglýsinguna vera þjónustu við eigendur Gömlu gufunnar, landsmenn sjálfa.

Greinilegt er að engu hefur verið til sparað og fóru margar af þekktustu leikkonum þjóðarinnar með stuttan texta í myndskeiðinu en meðal þeirra má nefna Ragnhildi Gísladóttur, Kristbjörg Kjeld, Halldóru Geirharðsdóttur og Ilmi Kristjánsdóttur. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var kostnaður við gerð auglýsingarinnar ekki undir tveimur milljónum en það er auglýsingastofan Spark sem á heiðurinn af henni.

Ásdís Pedersen, kynningarstjóri hjá Rás 1, segir að það hafi staðið lengi til að fara í svona ímyndarherferð fyrir gömlu gufuna. „Við vildum reyna að koma því til skila hvað Rás 1 stendur fyrir," segir Ásdís. „Hingað til hafa þetta verið litlar myndir af innanbúðarfólki en það kemur og fer. Rás 1 hefur hins vegar verið til í bráðum 76 ár og það er ekkert farasnið á henni," bætir Ásdís við sem vonaðist til að með auglýsingunni kæmi skýrt fram hvernig útvarp gamla gufan væri.

Guðlaug Elísabet ein þeirra leikkvenna sem les stuttan texta í auglýsingu Rásar 1.

„Rás 1 er bæði hefðbundin og framsækin, harðgift en um leið laus og liðug," útskýrir Ásdís. Aðspurð hvort það væri rétt af ríkisreknu fyrirtæki að eyða peningum í ímyndarherferð sagði Ásdís að í hennar huga væri þetta frekar þjónusta við landsmenn heldur en auglýsing. „Við búum við allt annað umhverfi í dag heldur en fyrir nokkrum árum þegar allir vissu hvað Rás 1 og Rás 2 voru," segir Ásdís. „Í öllu þessu áreiti sem er í gangi um þessar mundir getur sameign þjóðarinnar gleymst og það þarf að minna eigendurna á hvað þeir eiga."

Páll Magnússon, útvarpsstjóri í Efstaleytinu, viðurkenndi að hann hefði ekki séð auglýsinguna. Hann upplýsti þó að mörgum þætti gamla gufan eitt best geymda leyndarmálið á öldum ljósvakans. „Mörgum hefur þótt að starfsemi hennar hafi farið framhjá ungu fólki sem er vant miklu framboði í útvarpi," segir Páll. „Við vildum því fara útí gerð þessarar auglýsingar þannig að allar þessar gullperlur sem þarna eru á dagskrá færu ekki fyrir ofan garð og neðan," bætir Páll við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.