Annar af stofnendum Atlantic Records, Ahmet Ertegun, er látinn, 83 ára gamall. Ertegun átti stóran þátt í að gera Ray Charles og Arethu Franklin að stjörnum, auk þess sem hann gerði plötusamning við The Rolling Stones snemma á áttunda áratugnum.
Ertegun meiddist á höfði þegar hann datt á tónleikum Stones í New York í október. Fór hann í dá og lést síðan í kjölfarið.
Ertegun var mikill djassáhugamaður. Hann flutti til Bandaríkjanna ellefu ára þegar faðir hans gerðist sendiherra Tyrklands í landinu. Ertegun stofnaði Atlantic Records ásamt Herb Abramson árið 1947. Fljótlega gerðu þeir samning við stór nöfn á borð við Dizzy Gillespie og Duke Ellington og smám saman varð fyrirtækið stærra. Gerðu þeir m.a. samning við Led Zeppelin.
Fyrirtækið er nú hluti af Warner Music Group sem hefur á sinni könnu listamenn á borð við Kid Rock, James Blunt og Missy Elliott.