Lífið

Krot á strætó orðið að vandamáli

Ómar Ágústsson segir að veggjakrot og þess háttar skemmdarverk muni versna til muna ef graffití fái ekki aðhald frá Reykjavíkurborg.
Ómar Ágústsson segir að veggjakrot og þess háttar skemmdarverk muni versna til muna ef graffití fái ekki aðhald frá Reykjavíkurborg.

Í vikunni lak myndband á netið sem sýnir tvo unga drengi vinna skemmdarverk á strætisvagni með úðabrúsum. Skemmdarverk af þessu tagi eru ekki algeng á Íslandi en rekstrarstjóri Strætó segir að myndbandið sé ekki góðs viti. Ómar Ágústsson baráttumaður og áhugamaður um graff segir að málin muni bara versna, verði graff-listamönnum ekki veitt aðhald.

„Þetta er ekki góðs viti," segir Einar Kristjánsson rekstrarstjóri Strætó um myndband sem hægt er að finna á heimasíðunni youtube.com, en þar sjást ungir og grímuklæddir drengir skrifa dulnefni sín með spreybrúsum á strætisvagn. Hingað til hefur það ekki tíðkast meðal graff-listamanna á Íslandi að ráðast utan á strætisvagna, en hugsast getur að „graffarar" ráðist á strætisvagna hér á landi á svipaðan hátt og þeir gera við lestir annarstaðar í Evrópu. „Helsta vandamálið hingað til hefur verið innan í vögnunum, en það gerist einstaka sinnum að krotað er á bílana sjálfa," segir Einar, en strætisvagnar eru fljótt teknir úr umferð eftir að krotað er á þá. „Við látum bílana ekki sjást með krotið á, en það gæti virkað eins og boð um enn meira krot."

Það er bæði tímafrekt og dýrt að þrífa krot af strætisvagni og í einstaka tilfellum þarf að sprauta vagna upp á nýtt, sé ekki hægt að fjarlægja krotið án þess að skemma lakk bifreiðarinnar í leiðinni. Til þessa hefur árlegur kostnaður við skemmdarverk af þessu tagi verið í kringum tvö til þrjúhundruð þúsund krónur en nú fer hann stöðugt hækkandi. Einar bjó lengi í Kaupmannahöfn, þar sem hann starfaði við strætisvagnakerfið og vonar hann að vandamálið verði aldrei jafn alvarlegt og þar. Hann segir að vandamálið þar liggi einna helst í lestunum og að allt sé myndað í bak og fyrir. Að sögn Einars eru dæmi um að menn hafi verið sektaðir um hundruð þúsunda danskra króna og jafnvel dæmdir í fangelsi, séu þeir gripnir.

„Ég vona að vandamálið verði ekki jafn alvarlegt hér, frekar einhver smá prakkarastrik sem hægt verður að stoppa. En þegar þetta er komið á netið þá er greinilegt að menn eru að skiptast á myndum og monta sig við hina, sem er ekki gott."

Ómar Ágústsson, forsprakki samtakanna TFA og óformlegur talsmaður graff-listamanna á Íslandi segir að verknaðurinn sé afleiðing af hertri stefnu lögreglunnar og Reykjavíkurborgar í garð veggjakrots. „Það er alveg sjálfgefið að ef graffití fær hvergi aðhald og ekkert nema bönn, þá fer það sömu leið og í útlöndum," og bendir Ómar líka á að stórlega sé búið að fækka þeim veggjum sem voru eitt sinn leyfðir til veggjakrots. Ómar segir að svo lengi sem gröffurum sé bannað að iðka iðju sína, muni þeir ráðast á einkaeignir, strætisvagna og annað slíkt. „Það er varla hægt að kenna bara gröffurunum um þetta. Ef aðgerðirnar gegn graffití eru hertar, þá munu málin versna í samræmi við það. Um leið og mótspyrnan er aukin, þá er það bara eðli graffití-menningarinnar og hiphop-menningarinnar að streitast sterkar á móti."

Einar Kristjánsson rekstrarstjóri strætó vonar að vandamálið verði ekki jafn alvarlegt og í nágrannalöndum okkar.


.
Brot úr myndbandi sem hægt er að finna á netinu, en þar ráðst veggjakrotarar á strætisvagna með úðabrúsann að vopni.


.


.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.