Lífið

Fondú fyrir byrjendur

Dómhildur Sigfúsdóttir segir fondú­gerð ekki svo flókna en nauðsynlegt sé að nota feitan ost.
Dómhildur Sigfúsdóttir segir fondú­gerð ekki svo flókna en nauðsynlegt sé að nota feitan ost. MYND/Stefán

Fondú er skemmtileg tilbreyting í matarboðum, en það eru kannski ekki allir sem treysta sér í fondúgerð. Dómhildur Sigfúsdóttir hjá Osta- og smjörsölunni lumar á góðum ráðum.

„Það gildir að nota feitan ost. Hann getur þó verið mismunandi vatnsríkur og þykktin þar með breytileg,“ útskýrir Dómhildur, sem mælir því með því að fólk noti ekki allan vökvann sem uppskriftin inniheldur, og bæti frekar í fondúið verði það of þykkt. Þunnt fondú má hins vegar þykkja með maizena eða kartöflumjöli. Fondú á aldrei að bullsjóða, heldur vera við suðumark. Það þarf einnig að halda fondúinu heitu á borðinu, annars getur það orðið of þykkt og seigt til að dýfa í.

„Það má nota Emmentaler, Gryere, Comte, 26% ost, alla smurosta og steypta osta ásamt rjómaosti og gráðaostum í fondú,“ sagði Dómhildur. Hún mælir hins vegar með því að fólk blandi saman mildum og bragðsterkum ostum. „Ef það er vín í uppskriftinni, notið þá þurrt vín og varist að setja of mikið af því svo það yfirgnæfi ekki ostabragðið,“ sagði hún. Gott er að krydda réttinn með hvítlauk, pipar og salti ef þarf, og bera svo einhver skemmtileg krydd fram með matnum.

Fondúpottur og langir gafflar auka á stemninguna, en Dómhildur segir hægt að komast upp með álpott á hitaplötu eða jafnvel prímus. Það má heldur ekki gleyma góðu brauði til að dýfa í herlegheitin, og þeir sem vilja geta boðið upp á salat eða annað meðlæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.