Lífið

Kaffibrennslan veðjar á heilsufæði

Sara Rut segir að á heildina litið taki viðskiptavinir vel í breytingarnar. 
Fréttablaðið/stefán
Sara Rut segir að á heildina litið taki viðskiptavinir vel í breytingarnar. Fréttablaðið/stefán

„Það var bara komin tími á róttækar breytingar,“ segir Sara Rut Kristinsdóttir, rekstrarstjóri Kaffibrennslunnar, einum rótgrónasta hamborgarastað miðborgarinnar sem hefur nú gengið í endurnýjun lífdaga og sérhæfir sig í heilsufæði.

„Við notuðum tækifærið og tókum salinn í gegn, það eru komin sófasett og það er miklu meiri klassi yfir öllu. Staðnum hafði ekki verið breytt frá því hann var opnaður fyrir réttum tíu árum þannig að þetta var löngu tímabært. Brennslan var bara orðin þreytt.“

Sara Rut segir að samkeppni milli hamborgarastaða sé gríðarleg og að það sé barist um hvern viðskiptavin. „Hins vegar er sáralítið af stöðum sem sérhæfa sig í heilsufæði, fyrir neðan Lækjargötu er enginn slíkur staður. Fólk þarf að fara alla leið upp á Skólavörðustíg til að fara á Grænan kost.“ Hún tekur aftur á móti fram að hið fjölbreytta úrval bjórtegunda sé enn til staðar. „Ólíkt flestum veitingastöðum sem sérhæfa sig í heilsufæði er hægt að fá sér hvítvínsglas eða bjór með matnum. Svo geta þeir sem vilja reykt á efri hæðinni. Við leggjum áherslu á hinn gullna meðalveg.“

Sara segir að heilt á litið hafi breytingunum verið tekið vel. „Sumir eru ósáttir en aðrir ánægðir. Við erum auðvitað bara nýbúin að opna og fólk er enn að átta sig á þessu. Nóvember og desember eru líka leiðinlegir mánuðir að því leyti að fólk fer minna út að borða því það vill eiga peninga í jólagjafir. En ég vonast til að straumurinn liggi til okkar eftir hátíðirnar þegar allir eru búnir að fá sig fullsadda af feitmetinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.