Lífið

Forréttindi að fara með

Kristján M. Atlason hafði aldrei verið í hjálparstarfi áður en skellti sér til fátækrahverfis í Naíróbí í sumarfríinu.
Kristján M. Atlason hafði aldrei verið í hjálparstarfi áður en skellti sér til fátækrahverfis í Naíróbí í sumarfríinu. MYND/Brink

Kristján M. Atlason fór í óhefðbundið sumarfrí í ár. Hann slóst í för með útsendara ABC hjálparstarfs og hélt til stærsta fátækrahverfis Afríku í Naíróbí í Keníu. „Ég hef unnið eins og brjálæðingur undanfarin ár, þannig að ég átti sjö vikna sumarfrí," sagði Kristján í samtali við Fréttablaðið.

„Mér fannst vonlaust að fara að húka á Kanarí eða einhverjum álíka stað í sjö vikur, svo ég lét það fréttast að ég hefði áhuga á hjálparstarfi," sagði hann. Kristján, sem vinnur hjá Samskipum, komst í samband við Þórunni Helgadóttur, kynningarstjóra ABC, sem var á leið til Kenía til að koma starfsemi ABC af stað þar.

Kristján hafði aldrei komið að hjálparstarfi áður, en fannst tími til kominn að kynna sér stöðuna í heiminum. Þegar til Kenía var komið hófu Kristján og Þórunn að taka viðtöl við aðstandendur þeirra barna sem komu til greina í stuðningsforeldrakerfi ABC. „Við reyndum að finna þau börn sem áttu um sárast að binda," sagði Kristján. Hann sagðist hafa heyrt óendanlega margar og erfiðar sögur og fullt var út úr dyrum í húsnæðinu sem þau Þórunn höfðu til umráða eftir að vera þeirra í fátækrahverfinu spurðist út.

„Þarna er rosalega fátækt, fullt af vannærðum börnum sem mörg hver hafa misst foreldra sína úr eyðni. Við hittum líka konu sem hafði lent í því að maðurinn hennar hélt fram hjá henni og smitaði hana svo af eyðni. Þegar hann komst að því að hún var smituð yfirgaf hann fjölskylduna," sagði Kristj án, sem er nú stuðningsforeldri barna konunnar.

Hann heimsótti einnig flóttamannabúðir í Norður-Úganda, þar sem ABC hefur starfað í samvinnu við samtökin Australia-Uganda Foundation. „Þar há Joseph Kony og Lord's Resistance Army hræðilegt stríð," sagði Kristján sem kvaðst hafa heyrt skelfilegar sögur af framgöngu hersins. „Þeir dreifa eyðni og kaupa ungar stúlkur fyrir brennivín," sagði Kristján. „Þó að börnin í Kenía byggju í fátækrahverfi var stutt í brosið hjá þeim og þau brugðu á leik fyrir myndavélina. Börnunum í Úganda stökk ekki bros, þau voru bara alveg frosin," sagði hann.

Kristján segist nú treysta ABC fullkomlega. „Mér fannst algjör forréttindi að fá að fara með," sagði Kristján, og bendir að lokum á að nánari upplýsingar um starfið sé að finna á heimasíðu ABC barnahjálpar, www.abc.is.

Kristján sagði börnin í Norður-Úganda bera hörmungarnar sem þau hafa upplifað með sér.


.
Þó að neyðin væri mikil í fátækrahverfinu í Naíróbí var stutt í brosið hjá börnunum.


.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.