Lífið

Segir snemmbúnum jólaundirbúningi stríð á hendur

Atli Týr ætlar að sniðganga þau fyrirtæki sem hafa gert sig sek um að hefja jólaundirbúningin of snemma.
Atli Týr ætlar að sniðganga þau fyrirtæki sem hafa gert sig sek um að hefja jólaundirbúningin of snemma.

Mörgum blöskrar að jólaskreytingar skuli vera komnar upp, jólalög fari bráðum að hljóma á öldum ljósvakans og jólin séu hreinlega komin í byrjun október eða miðjan nóvember. Atli Týr Ægisson hefur opnað netsíðuna atli.askja.org/jol/ þar sem hann birtir nöfn þeirra fyrirtækja sem hafa gerst sek um að flýta öllu því sem tengist jólunum. „Ég er ekki beint að mótmæla jólunum heldur frekar ótímabærum jólaundirbúningi," segir Atli en þetta er þriðja árið í röð sem hann hefur þennan háttinn á og hefur síðan notið mikilla vinsælda en þar geta gestir fengið afnot af borða sem á stendur. „Jólin mín byrja í desember - jól á réttum tíma". Á heimasíðunni segir Atli að þessi ótímabæri jólaundirbúningur spilli fyrir hinum alvöru jólum og að margir séu hreinlega orðnir dauðþreyttir á þeim þegar þessi hátíð ljóss og friðar gengur í garð.

Meðal þeirra fyrirtækja sem nefnd eru á listanum má nefna Kringluna sem Atla telst til að hafi verið skreytt með jólaskrauti í lok október og IKEA sem hóf að selja jólavörur 12. október. „Þetta er svolítið þreytandi," segir Atli. „Menn mættu svona aðeins fresta þessu fram til loka nóvember eða byrjun desember," bætir Atli við og segist ekki ætla að versla við þau fyrirtæki sem hafi þennan háttinn á, að flýta jólunum. Hann segist þó ekki vita til þess að útvarpsstöðvar séu farnar að spila jólalög en það styttist örugglega í það.

Atli er ekki sá eini sem berst gegn þessari þróun því sambærileg samtök má finna í Noregi sem heita „Gi oss jula tilbake" eða Gefið okkur jólin aftur og er þar harðlega mótmælt þeirri brjáluðu efnishyggju sem fylgi jólahaldi. Á Íslandi eru jafnframt samtökin um gleðileg jól starfrækt í Hafnarfirði en þar eru bæjarstarfsmenn í óða önn að koma upp jólaskreytingum þótt ekki hafi verið kveikt á þeim. Atli stundar söngnám við Tónlistarskólann í Hafnarfirði hjá Guðlaugi Viktorssyni og segist söngvarinn ekki vera farinn að æfa jólalögin. „Ekki enn í það minnsta," segir hann og hlær. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.