Lífið

Þrír trúbadorar frá þremur löndum

Svavar Knútur  Trúbadorinn Svavar Knútur heldur þrenna tónleika á næstu dögum ásamt erlendum vinum sínum.
Svavar Knútur Trúbadorinn Svavar Knútur heldur þrenna tónleika á næstu dögum ásamt erlendum vinum sínum. MYND/Heiða

Þrír trúbadorar frá þremur löndum troða upp hér á landi næstu daga. Þjóðverjinn Torben Stock og Ástralinn Pete Uhlenbruck, sem kemur fram undir nafninu Owls of the Swamp, munu syngja lög sín ásamt Svavari Knúti, sem verður fulltrúi Íslands.

Um þrenna tónleika verður að ræða og verða þeir fyrstu á Kaffi Hljómalind í kvöld klukkan 20.00. Næst spila þeir á Café Rosenberg á miðvikudagskvöld og þriðju tónleikarnir verða í Viðskiptaháskólanum á Bifröst í Borgarfirði.

Tónlist allra þriggja trúbadoranna er í rólegri kantinum, dálítið innhverf og persónuleg og andi Nicks Drake og líkra listamanna svífur yfir vötnum. Þeir eru ofboðslega melódískir og ljúfir og gera einlæga texta, segir Svavar Knútur, sem vann trúbadorakeppni Rásar 2 á síðasta ári.

Þess má geta að Uhlenbruck er búinn að vera á tónleikaferðalagi um Evrópu sem hann skipulagði nær eingöngu gegnum Myspace-síðuna og kunningskap gegnum hana og er þessi stutta heimsókn þeirra Torbens til Íslands einnig afurð Myspace-vinskapar.

Að sögn Svavars munu þeir Torben og Uhlenbruck gista hjá honum meðan á dvöl þeirra á Íslandi stendur og munu þeir m.a. nota tímann til að skoða sig um í fagurri náttúrunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.