Lífið

Styttist í öfgasýninguna

Birgir Nielsen og Björgvin Rúnarsson eru komnir með umboðsmannasamning fyrir Extreme team í Evrópu.
Birgir Nielsen og Björgvin Rúnarsson eru komnir með umboðsmannasamning fyrir Extreme team í Evrópu.

Birgir Nielsen og Björgvin Rúnarsson flytja inn Extreme team, en þeir reka saman fyrirtækið 2B company. Extreme team skaust upp á stjörnuhimininn þegar liðsmenn sýndu í hálfleikjum í NBA-deildinni í Bandaríkjunum. Sýningarnar hér á landi verða tvær, en þær fara fram í Laugardalshöllinni 18. nóvember.

„Þetta eru allt miklir íþróttamenn," sagði Birgir í samtali við Fréttablaðið. „Hingað koma brjálaðir loftfimleikamenn, strákar sem slam-dunka, eða troða körfuboltum í körfur eins og það heitir á íslensku. Svo eru þarna BMX-hjóla strákar, bestu breikarar Bandaríkjanna og gúmmímaður, sem getur farið úr öllum liðum sem fyrirfinnast í líkamanum." sagði Birgir. Undir herlegheitunum þeytir svo margverðlaunaður bandarískur plötusnúður skífum. Birgir sagðist búast við mikilli aðsókn á sýningarnar.

„Já, miðasalan á miði.is er þegar hafin og gengur rosalega vel."

Í fylgd með Extreme team verður líka minnsta körfuboltalið í heimi, Minihoops, en liðið skipa sex dvergar auk liðsstjóra í venjulegri stærð. „Þeir hafa ferðast út um allt, heimsótt barnaspítala og barist gegn einelti," sagði Birgir, en hann segir þá vera fyndnasta körfuboltalið í heimi.

„Þeir eru truflaðir. Af fjögur hundruð leikjum hafa þeir tapað ellefu," sagði Birgir, en Minihoops eru bókaðir fimm ár fram í tímann. Enn er þó ekki komið á hreint hverjir munu mæta dvergunum í Laugardalshöllinni. „Ég skora bara hér með á kvennalandsliðið í körfubolta að taka slaginn," sagði Birgir kátur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.