Lífið

Önnur úthlutun CIA

Ólafur Árni Ólafsson myndlistarmaður Fær styrk til vinnustofudvalar í Berlín.
Ólafur Árni Ólafsson myndlistarmaður Fær styrk til vinnustofudvalar í Berlín. MYND/Pjetur

Fagnefnd Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar hefur úthlutað styrkjum í síðari styrkja­lotu ársins. CIA.IS styrkir íslenska myndlistarmenn til starfa og sýningarhalds erlendis en á árinu hafa slíkir styrkir hlotnast fjörutíu listamönnum.

Í fagnefnd Kynningarmiðstöðvarinnar sitja Dr. Christian Schoen, forstöðumaður Kynningarmiðstöðvarinnar og formaður nefndarinnar, Helgi Þorgils Friðjónsson, myndlistarmaður og fulltrúi SÍM, og Hafþór Yngvason, forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur. Gestir nefndarinnar að þessu sinni voru listfræðingarnir Laufey Helgadóttir og Jón Proppé. Miðstöðinni bárust 24 umsóknir að þessu sinni og voru 7 styrkir veittir í 3 flokkum.

Ferða- og dvalarstyrk að upphæð 200.000 hlaut Ólafur Árni Ólafsson vegna dvalar í vinnustofunum Kuenstlerhaus Bethanien, í Berlín í Þýskalandi. Ólafi Árna hefur verið boðin dvöl í Kuenstlerhaus Bethanien, einni af stærstu og virtustu alþjóðlegu vinnustofum sinnar tegundar í Evrópu. Ólafur Árni er búsettur í Amsterdam ásamt konu sinni Libiu Peres de Siles de Castro, en þau hafa starfað saman í myndlist síðastliðin tíu ár.

Útgáfustyrk að upphæð 200.000 kr. hlutu annars vegar ljósmyndarinn Spessi vegna útgáfu ljósmyndabókarinnar „Locations“, Spessi hefur tekið myndirnar í bókina víða á Íslandi þar sem manngert umhverfi blandast náttúrunni. Spessi starfar sem ljósmyndari og myndlistarmaður hér á landi og erlendis. Hins vegar Sequences-hátíðin vegna útgáfu DVD með skrásetningum frá viðburðum hátíðarinnar. Sequences-hátíðin er alþjóðleg myndlistarhátíð með áherslu á tímatengda miðla sem haldin verður í Reykjavík 13.-28. október næstkomandi. Eftir hátíðina er ætlunin að gefa út DVD disk með upplýsingum um hátíðina til dreifingar erlendis.

Verkefnastyrki að upphæð 200.000 hlutu Finnbogi Pétursson og Rúrí. Finnbogi hlaut þau vegna hljóðinnsetningar í Land Foundation í Chiang Mai í Taílandi. Finnbogi mun gera hljóð-innsetningu, taka þátt í verkefnavinnu og halda fyrirlestra í listaháskólanum í Chiang Mai í Taílandi og Rúrí vegna þátttöku í Paris Photo 2006 þar sem hún verður í nóvembermánuði.

Verkefnastyrki að upphæð 100.000 hlutu Steingrímur Eyfjörð vegna þátttöku sinnar í „Dream­lands Burn“, norrænni nútímalistasýningu í Kunsthalle Budapest í Ungverjalandi og Kling & bang gallerí sem fær styrk vegna þátttöku í Art Brussels Contemporary listamessunni, þar sem kynntir verða ungir upprennandi listamenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.