Lífið

Vill stofna eigin stjórnmálaflokk

Gerður kristný 
Samdi skólaþing fyrir nemendur í 9. og 10. bekk.
Gerður kristný Samdi skólaþing fyrir nemendur í 9. og 10. bekk. MYND//sigurður bogi

Gerður Kristný rithöfundur stóð í stórræðum í sumar og skóp hvorki meira né minna en nýtt löggjafarþing. "Alþingi hafði samband við mig og bað mig um að skrifa handrit að skólaþingi fyrir nemendur í 9. og 10. bekk, sem fer vonandi í gang næsta haust," segir Gerður.

Þingið er að norrænni fyrirmynd og er skipulagt þannig að unglingarnir mæta í húsnæði sem er eftirlíking af Alþingi og bregða sér í hlutverk þingmanna. "Ég hafði þann starfa að semja drög að fjórum uppistöðu flokkum, 56 þingmönnum og frumvörpum sem þeir bítast um. Ég vann með nefnd á vegum Alþingis og við gættum þess að frumvörpin væru tímalaus en jafnframt áhugaverð og hefðu erindi, ekki mál sem verða útjöskuð strax."

Skemmtilegast fannst Gerði hins vegar að semja bréf, bloggsíður, tölvupósta og símtöl þingmanna sem og lobbíastanna og almennings sem vill hafa áhrif á störf þingsins. "Það var séríalagi skemmtilegt að bregða sér í hlutverk kverúlanta sem vilja herskyldu á Íslandi svo þjóðin geti gengið í takt á 17. júní."

Hún segir þessa reynslu hafa verið alla hina lærdómsríkastu og rökrétt að nýta hana enn betur. "Nú langar mig að stofna minn eigin stjórnmálaflokk og hafa í kringum mig her kverúlanta," segir Gerður Kristný, sem sendir brátt frá sér barnabókina Land hinna týndu sokka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.