Lífið

Sykurmolar undrandi á erlendum áhuga

Björk Það er ekki síst nærvera Bjarkar sem hefur vakið áhuga erlendra fjölmiðla en Sykurmolarnir lögðu grunninn að velgengni sólóferils hennar.
Björk Það er ekki síst nærvera Bjarkar sem hefur vakið áhuga erlendra fjölmiðla en Sykurmolarnir lögðu grunninn að velgengni sólóferils hennar.

Endurkoma Sykurmolanna hefur vakið mikla athygli en eins og Fréttablaði greindi frá í gær hefur fjöldi erlendra fjölmiðla verið með fréttir af tónleikunum á vefsíðum sínum. Einar Örn Benediktsson, söngvari sveitarinnar, var upp með sér yfir þessum mikla áhuga en viðurkenndi að þetta kæmi sér spánskt fyrir sjónir.

„Við erum að gera þetta hérna á Íslandi vegna þess að við erum íslensk,“ segir hann en benti hins vegar á að Flugleiðir væru að bjóða ferðir á atburðinn og því hefði verið viðbúið að eitthvað af útlendingum myndi koma hingað til að sjá hljómsveitina á sviði. „Síðast þegar Björk spilaði hérna heima kom lítill hópur frá Japan.“

Einar verður hins vegar hálf undrandi þegar blaðamaður upplýsir að veftímarit í Norður-Kóreu hafi fjallað um endurkomuna. „Ef þeir í Norður-Kóreu hafa áhuga á samstarfi verðum við auðvitað að skoða allar hliðar málsins,“ segir Einar Örn og bætir við að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um hvað Sykurmolarnir ætli sér að gera fyrir erlenda fjölmiðla. „Hið undarlega í málinu er að við erum bara með þessa einu tónleika og erum ekkert að kynna eitthvað verkefni eins og svo oft þegar fólk er að gera svona.“

Athygli hefur vakið að allur ágóði af tónleikunum rennur til útgáfufyrirtækisins Smekkleysu og hefur því verið fleygt fram að fyrirtækið sé á vonarvöl. Einar Örn vísar því algjörlega á bug en segir að það glími við lítinn markað rétt eins og önnur útgáfufyrirtæki. „Friðrik Erlingsson teiknaði póstkort vegna leiðtogafundar Reagans og Gorbatsjovs og var ágóðinn af því notaður til að gefa út Birthday. Þegar Sykurmolarnir og smáskífan fóru að selja voru þeir peningar notaðir til að gefa út aðrar hljómsveitir á borð við Risaeðluna og Ham,“ útskýrir Einar og segir að hluti af gróða tónleikanna verði notaður til að hnýta nokkra lausa enda en síðan verði fjármagnið notað til að skapa hresst umhverfi fyrir útgáfu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.