Lífið

Stýrir samkomum um hlutverk trúar

Samkomur undir yfirskriftinni Ein trú, tveir heimar hófust í Dómkirkjunni í gær og halda áfram í dag. Séra Jakob Ágúst Hjálmarsson dómkirkjuprestur leiðir samkomurnar, en markmið þeirra er að hvetja kristið fólk til að virkja og þroska trú sína. Jakob segir samkomurnar höfða til þeirra sem eigi trú. Þær eiga að vekja fólk til umhugsunar um hvaða gagn það gerir sér af trú sinni og hvort það geti ekki virkjað hana betur í lífinu, segir hann.

Meðal þess sem verður til umfjöllunar er starf kristniboða og kirkja í þriðja heiminum og árangur af Hjálparstarfi kirkjunnar. Séra Helgi Hróbjartsson verður ræðumaður bæði kvöldin, en hann hefur mikla reynslu af kristniboði og hjálparstarfi. Sjáir þú að trúin sé blessun í lífi þínu ættirðu að deila með þér til annarra manna nær og fjær, bæði í orði og verki, segir Jakob. Hann segir samkomurnar einnig fela í sér áskorun til fólks um að taka trú sína alvarlegar og taka ábyrgð á henni eins og öðrum þáttum í tilverunni.

Jakob segir afar áríðandi að trúað fólk geri upp við sig til hvers það vilji hafa trúna í þjóðfélaginu. Trúin styrkist víða í þriðja heiminum, en er að missa tök sín á þjóðfélagi okkar, útskýrir Jakob. Trú er augljóslega virk í samfélagi þjóðanna; hún skiptir miklu máli í Bandaríkjunum, mesta stórveldi heims, og eins í múslimaheiminum, segir hann og bætir við: Höfum við ekkert til málanna að leggja í þessu sambandi? Aðspurður hvort samkomur af þessu tagi hafi áður verið haldnar á vegum Dómkirkjunnar segir Jakob svo ekki vera. Við höfum reynt ýmislegt í þessu sama skyni áður, en við lifum í nýjum skilningi á hverjum tíma.

Þessar samkomur eru sprottnar upp úr heimsmynd dagsins í dag, segir Jakob.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.