Lífið

Blóðbönd gera það gott í Kanada

Blóðbönd Segir sögu manns sem uppgötvar að sonur hans er í raun ekki sonur hans og hefur það alvarlegar afleiðingar.
Blóðbönd Segir sögu manns sem uppgötvar að sonur hans er í raun ekki sonur hans og hefur það alvarlegar afleiðingar.

Leikstjórinn Árni Ólafur Ásgeirsson er nýkominn heim frá kvikmyndahátíðinni í Toronto þar sem hann sýndi kvikmynd sína Blóðbönd sem hefur hlotið enska titilinn Thicker Than Water. Myndin var sýnd fjórum sinnum, þrisvar fyrir almenning og einu sinni fyrir blaðamenn og fagfólk. „Þetta gekk mjög vel og fólk virtist ná tengslum við söguna,“ segir Árni Ólafur en vissi þó ekki hvernig gengið hefði að selja myndina.

„Danska kvikmyndafyrirtækið Trust er með hana á sínum snærum og taldi að málin ættu að skýrast á næstu tveimur vikum,“ segir Árni

Leikstjórinn lýsir Toronto-kvikmyndahátíðinni sem hálfgerðri geðveiki. „Þarna eru sýndar 350 myndir á 10 dögum og þeir selja 300.000 miða á þessum tíma,“ útskýrir Árni og bætir við að kvikmyndir gangi nánast á kaupum og sölum á hverju götuhorni í borginni. „Fólkið sem býr í Toronto tekur sér bara tíu daga frí til að fara í bíó,“ segir Árni og bætir því við að einungis tuttugu prósent áhorfenda hafi gengið út á fagsýningunni. „Sem þykir víst ansi gott enda eru viðbrögðin þarna metin eftir því hversu mörg sæti eru auð þegar sýningu lýkur,“ segir Árni og hlær.

Blóðbönd eru jafnframt tilefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs ásamt kvikmyndinni Börnum en þessar myndir keppa báðar um hylli íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunnar vegna tilnefningar Íslendinga í Óskars-pottinn.

Árni fylgir Blóðböndum á nokkrar hátíðir og þegar hefur verið staðfest að myndin verði sýnd í Chicago, Róm og Þessaloníku en ferðalagið hefst í Kaupmannahöfn í næstu viku. Árni er að leggja drög að næstu mynd en vildi ómöglega gefa upp hvenær farið yrði á fullt við gerð hennar. „Þetta er svo hverfult að maður veit bara aldrei,“ segir Árni






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.