Innlent

Verðbólgan hefur þrefaldast á einu ári

Verðbólga mælist nú þrefalt meiri en hún var á sama tíma í fyrra og hefur ekki mælst hærri síðan í mars 2002. Útlit er fyrir að verðbólga hækki enn.

Ekkert lát virðist vera á hækkun verðbólgu sem hefur verið ofan verðbólgumarkmiða Seðlabankans í meira en tvö ár. Þróunin síðasta árið er að mestu upp á við. Verðbólgan nam tæpum þremur prósentum í maí á síðasta ári en var komin yfir þolmörk Seðlabankans í september. Síðan þá hefur hún haldist yfir þolmörkunum og mælist nú 7,6 prósent eða nær tvöfalt hærri en sem nemur þolmörkum Seðlabankans. Til einföldunar má segja að þegar verðbólga fari yfir þolmörk sé eitthvað að í hagkerfinu, enda ber Seðlabanka þá að kynna ríkisstjórn hugmyndir að aðgerðum gegn verðbólgu.

Verðbólgan án húsnæðisliðs er komin í 5,4 prósent og verðbólgan því komin vel yfir þolmörk Seðlabankans þó húsnæðisliðurinn sé ekki talinn með. Þetta er í fyrsta skipti frá því snemma árs 2002 sem verðbólgan fer yfir fjögur prósent mælt með þessum hætti.

Greiningardeildir Glitnis og KB banka spá níu prósenta verðbólgu frá upphafi þessa árs til loka þess en Landsbankinn sjö prósenta verðbólgu á sama tíma. Þetta þýðir að skuldabyrði vegna tíu milljóna króna verðtryggðs láns myndi aukast um sjö hundruð til níu hundruð þúsund krónur á árinu.

Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er á fimmtudag í næstu viku. Þá má gera ráð fyrir að stýrivextir hækki enn frekar en nú er orðið. En þeir hafa meira en tvöfaldast á rétt rúmum þremur árum. Greiningardeild KB banka spáir stýrivaxtahækkun upp á hálft prósentustig. Glitnismenn spá 75 punkta hækkun og Landsbankinn 50 til 75 punkta hækkun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×