Lífið

Músíkalskur fundur við meistarana

Peter Máté píanóleikari Leikur verk ættuð frá Austur-Evrópu.
Peter Máté píanóleikari Leikur verk ættuð frá Austur-Evrópu.

Píanóleikarinn Peter Máté heldur tónleika í TÍBRÁR-tónleikaröð Salarins í kvöld. Á efnisskránni eru verk eftir Janácek, Chopin, Bartók, Hjálmar H. Ragnarsson, Schubert og Franz Liszt. Í tilkynningu frá listamanninum segir að flest verkanna séu ættuð frá Austur-Evrópu. "Tónmál verkanna eru nátengd mállýsku og sérstökum framburði á tungu höfundanna, til dæmis móravísku Janáceks og ungversku Bartóks, og með það í huga er skemmtilegt að velta fyrir sér óvenjulegum hendingum í verkunum."

Peter Máté er ættaður frá Ungverjalandi og lauk einleikara- og meistaragráðu frá Tónlistar­akademíunni í Prag. Peter hefur verið búsettur á Íslandi frá 1990 og kennir nú við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík.

Hann kveðst hafa fengið tækifæri undanfarið til að leika fyrir þröngan vinahóp á stofutónleikum. "Það hefur verið mjög skemmtileg reynsla að leika fyrir lítinn hóp eins og tíðkaðist oft á tímum rómantísku risanna þó að fyrirbærið eigið sér raunar mun lengri sögu. Spenna, gleði, ást, vinátta og kærleikur eru aðeins nokkur þeirra orða sem koma upp í hugann. Það er einmitt von og ósk mín að eiga góðra vina fund með píanóverkum meistaranna á þessum tónleikum."

Tónleikarnir hefjast kl. 20 í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.