Lífið

Undirbýr tónleika á Miklatúni

Ys og þys Það var í nógu að snúast hjá starfsmönnum Exton við að undirbúa tónleikana þegar Fréttablaðið bar að garði.
Ys og þys Það var í nógu að snúast hjá starfsmönnum Exton við að undirbúa tónleikana þegar Fréttablaðið bar að garði.

Hrannar Hafsteinsson og félagar hjá hljóðkerfisleigunni Exton hafa unnið baki brotnu síðustu daga við að koma upp heljarinnar sviði á Klambratúni. Sviðið verður notað undir tónleika hljómsveitarinnar Sigur Rósar og strengjasveitarinnar Amiinu sem fram fara annað kvöld. Hrannar er enginn nýgræðingur í bransanum en hann hefur verið aðaltæknistjóri Hróarskelduhátíðarinnar síðustu ár.

„Við höfum verið að síðan á fimmtudag,“ sagði Hrannar þegar Fréttablaðið leit við á Miklatúni í gær en hann gat varla gefið sér tíma frá annasömum störfum enda að mörgu að huga þegar svo stórir tónleikar eru annars vegar. Festa þarf upp ljós, skrúfa saman ljósastangir, hengja upp hátalara, gera sviðsþakið klárt, grafa niður snúrur, ákveða hvar myndavélar eiga að standa og svo framvegis. Hrannar gat því ekki gefið sér tíma til að tala við Fréttablaðið.

Á Miklatúni vann stór hópur manna eins og vel skipulagðir maurar undir stjórn Hrannars. Enda ekki nema von – Hrannar veit hvað hann syngur. Hefur unnið við tónleika- og uppákomuhald í ein tólf ár. Samt er hann aðeins 27 ára.

Að sögn Hrannars hefur hann einnig unnið sem tæknistjóri á appelsínugula sviðinu, sem er stærsta tónleikatjald Hróarskelduhátíðarinnar. Hrannar hefur því marga fjöruna sopið í þessum bransa. Hann hefur líka hitt margar af helstu tónlistarstjörnum heims, þar á meðal Red Hot Chilli Peppers og Rammstein. „Rammstein er skemmtilegri á sviði,“ segir Hrannar, sem kom einnig að skipulagningu lokakeppni Euro­vision þegar Danir héldu hana í Parken. Góð vinátta hefur tekist með Hrannari og Lars Nissen, eiganda Seelite-fyrirtækisins, sem sérhæfir sig í búnaði tengdum tónleikahaldi, og er eitt stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndunum. „Þetta hefur verið töluvert flakk,“ segir Hrannar, sem bjó í Danmörku um skeið og flakkaði á milli landa vegna tónleikahalds.

Búast má við að þúsundir manna muni leggja leið sína á tónleika Sigur Rósar á morgun. Sveitin mun leika á risasviði, 13x14 metrar á stærð og níu metra upp í loft. Tveir 48 tonna kranar munu halda uppi hátalarastæðunni sem vegur tvö tonn. Tónleikar Sigur Rósar hefjast korter í níu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×