Lífið

The Go! Team á Airwaves

Eitt líflegasta sviðsband norðan alpafjalla. The Go! Team fær fólk út á gólf.
Eitt líflegasta sviðsband norðan alpafjalla. The Go! Team fær fólk út á gólf. MYND/AFP

Ærslabelgirnir í hljómsveitinni The Go! Team hafa bæst við fríðan flokk þátttakenda á Iceland Airwaves í ár. Er koma þeirra mikill fengur fyrir hátíðina enda þykir bandið með eindæmum skemmtilegt á sviði og hefur tónlist þess fengið glimr­andi viðtökur hlustenda beggja vegna Atlantsálanna. Fyrsta plata þeirra, Thunder, Lighting, Strike, var tilefnd til Mercury-verðlaunanna á sínum tíma en nú er von á nýrri skífu frá sveitinni og því líklegt að hún muni flytja glænýtt efni á tónleikunum í október.

Hljómsveitina skipa fjölhæfar stúlkur og drengir sem splæsa saman allar mögulegar og ómögulegar tónlistargreinar svo úr verður poppskotinn og drífandi rapp- og hip-hop bræðingur með viðkomu í Bollywood og elektróník, blanda sem fær flesta út á gólfin. Söngkonan Ninja er kunn fyrir galsafengna framkomu sem hinir fjölhæfu félagar hennar styðja í einu og öllu með tilheyrandi brambolti og örum hljóðfæraskiptingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×