Lífið

Meðalgóður millikafli

Pirates of the Caribbean: Dead Man‘s Chest
Leikstjóri: Gore Verbinski
Pirates of the Caribbean: Dead Man‘s Chest Leikstjóri: Gore Verbinski

Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl varð öllum að óvörum smellur árið 2003. Rétt eins og alltaf í Hollywood, þegar kvikmynd nær hæstu hæðum í miðasölunni, verður að búa til framhaldsmynd og nú eru þær ekki bara ein heldur tvær.

Pirates of the Carabbean: Dead Man's Chest hefst á því að hjónaleysin Will Turner og Elizabeth Swann eru handtekinn fyrir að hafa aðstoðað Sparrow á flótta undan réttvísinni af lávarðinum Cutler Beckett. Beckett gerir samkomulag við Turner um að hann finni Sparrow og fái hjá honum áttavita sem er þeim hæfileika gæddur að geta vísað veginn á þann hlut sem stendur viðkomandi hjarta næst. Þegar Turner hefur loks upp á Sparrow er hann í vanda staddur (fyrir utan mannætur sem hafa gert hann að Guði og ætla sér að éta hann) því sæskrímslið Davy Jones á inni hjá honum sálina eftir að hafa lyft Svörtu perlunni upp af hafsbotni fyrir þrettán árum. Komið er að skuldadögum en skipstjórinn klóki hyggst að sjálfsögðu komast hjá því að borga með öllum tiltækum ráðum. Vandamálið er að lausnin liggur grafin í kistu á einskismannslandi og lykillinn að henni hangir utan um hálsinn á Davy Jones.

Dead Man's Chest er að sjálfsögðu uppfull af flottum hasar­atriðum, skylmingasenum og glæsilegum tæknibrellum. Sæskrímslin eru einstaklega vel gerð og þar fer fremstur í flokki Davy Jones sem lítur út fyrir að vera mannlegur kolkrabbi. Allar persónur myndarinnar eru einhvers konar erkitýpur, meðal annars skipsverji með páfagauk á öxlinni og tveir heimskir félagar sem henda fram fimmaurabröndurum í miðju stuðinu. Allt kórrétt eftir ákveðinni formúlu sem ætti að halda áhorfandanum við efnið. Vandamálið við Dead Man's Chest er að hún er númer tvö, hennar hlutverk er að byggja upp spennu fyrir lokakaflann en standa jafnframt á eigin fótum. Þar sem þríleikurinn varð ekki til fyrst heldur er skapaður vegna vinsælda fyrstu myndarinnar er söguþráðurinn heldur klúðurslegur og nánast asnalega flókinn á köflum með alltof mörgum útúrdúrum.

Johnny Depp heldur uppi merki fyrri myndarinnar með stanslausu stuði og Jack Sparrow er einhver allra skemmtilegasta persóna sem þessi stórkostlegi leikari hefur alið af sér. Bill Nighy er óþekkjanlegur í hlutverki Davy Jones og Stellan Skarsgaard hæfilega þunglyndur og leiður sem Bootstrap Bill, faðir Will Turner. Ungstirnin Keira Knightley og Orlando Bloom eru því miður full saklaus og hálf leiðinleg í sínum hlutverkum, einhver þyrfti að kýla Bloom ærlega í andlitið og gefa honum rommflösku til að hann verði trúverðugur sjóræningi eða í það minnsta sjómaður.

Dead Man's Chest er ágætis ævintýramynd en stendur forvera sínum svolítið að baki. Skemmtunin er í fyrirrúmi og leikstjórinn Gore Verbinski sér til þess að engum leiðist í þá rúma tvo tíma sem myndin er. Kannski eru það bara örlög miðkaflans að falla í gleymskunnar dá en Dead Man's Chest tekst að skilja eftir sig spennu fyrir síðustu myndina þar sem öllu verður tjaldað til og það var ef til vill alltaf markmiðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×