Lífið

Fékk Elle Macpherson í heimsókn um helgina

Tekjuhæsta ofurfyrirsæta heims
Elle Macpherson var stödd hér á landi um helgina og er það víst ekki í fyrsta sinn.
Tekjuhæsta ofurfyrirsæta heims Elle Macpherson var stödd hér á landi um helgina og er það víst ekki í fyrsta sinn. MYND/Gettyimages

"Elle Macpherson var hér á landi um helgina í fríi og hafði samband við mig til að spjalla. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hún kemur hingað," segir Georg Guðni Hauksson myndlistarmaður. Hann vill þó lítið tjá sig um samskipti sín við fyrirsætuna. Georg Guðni og Elle þekkjast síðan hann hélt myndlistarsýningu í Los Angeles í janúar og hreifst hún af málverkum hans og festi kaup á einu þeirra.

Georg Guðni hefur oft verið kallaður bjargvættur íslenska landslagsmálverksins og vakið mikla athygli fyrir falleg landslagsmálverk hérlendis og erlendis. Á döfinni hjá honum eru bæði sýningar og bókaútgáfa. "Það eru erlendir aðilar í Þýskalandi sem eru að undirbúa bók um mig og list mína sem kemur út þar í landi bráðlega."

Georg Guðni býr og starfar í Reykjavík og hefur haldið fjölda einkasýninga bæði hér heima og á erlendum vígstöðvum. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og við Jan Van Eyck Akademie í Maastricht á árunum 1985-1987. Georg hlaut Menningarverðlaun DV árið 1988 og hefur verið úthlutað listamannalaunum samtals fjórum sinnum.

Elle Macpherson er leikkona og ofurfyrirsæta sem hefur haft gælunafnið Kroppurinn. Hún er áströlsk að uppruna og hefur verið á forsíðum allra helstu tískutímarita heims enda talin tekjuhæsta ofurfyrirsæta síns tíma ásamt Naomi Campell, Cindy Crawford og Christy Turlington. Einnig hefur hún komið fram í fjöldanum öllum af bíómyndum á borð við Sirens, Jane Eyre og If Luck Fell en einnig sást hún í nokkrum þáttum af sjónvarpsþáttaröðinni vinsælu Vinum eða Friends þar sem hún lék meðleigjanda Joey.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Georg Guðni kemst í kynni við stórstjörnur því þegar leikarinn Viggo Mortensen var staddur hér á landi heillaðist hann einnig af landslagsmálverkum hans. Viggo gaf út bók sem heitir "Strange Familiar" með verkum Georgs Guðna í vor og einnig hafa þeir haldið sýningu saman í Los Angeles.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×