Lífið

Botnleðja og Kátir piltar gera plötu saman

Heiðari hlakkar til að vinna með Kátum piltum.
Heiðari hlakkar til að vinna með Kátum piltum.

Þetta verkefni er nú ekki farið almennilega af stað. En jú, ég get staðfest að við í Botnleðju erum að fara að gera plötu með Kátum piltum, segir Heiðar Örn Kristjánsson tónlistarmaður. Heiðar og Haraldur Freyr Gíslason, félagi hans úr Botnleðju, eru með hörðustu stuðningsmönnum knattspyrnuliðs FH. Á leikjum liðsins hafa þeir hitt grallaraspóana úr Kátum piltum sem voru afar vinsælir undir lok níunda áratugarins. Ákveðið hefur verið að þessar hafnfirsku sveitir leiði saman hesta sína á plötu.

Þetta skýrist betur á næstu vikum en ég get ekki neitað því að það er mikill heiður fyrir okkur að vinna með Kátum piltum. Feitar konur og fleiri lög eru óborganleg, segir Heiðar.

Þetta verður alger tímamótaplata, sagði Jakob Bjarnar Grétarsson úr Kátum piltum. Fréttablaðið náði tali af honum þar sem hann var staddur í fríi á Spáni og sagði Jakob að ráðist yrði í plötugerð þegar hann sneri aftur. Meðal annarra liðsmanna Kátra pilta eru Steinn Ármann Magnússon, Davíð Þór Jónsson og Hallur Helgason. Verkefni þetta hefur ekki fengið endanlegt nafn en vinnuheitið er Kátir í botni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×