Á hverjum sunnudegi klukkan 14.00 má sjá nokkra hraustlega karlmenn í tuðrusparki við Austurbæjarskóla. Það væri ekki í frásögur færandi nema að fremst í flokki hjá þessum fræknu köppum er Þorvaldur Kristinn Gunnarsson, betur þekktur sem Valdi, eigandi Geisladiskabúðar Valda á Vitastíg. Annað liðið er sett saman af Valda og fastakúnnum Geisladiskabúðarinnar. Hitt liðið er skipað rokkurum sem halda úti þungarokkssíðunni Taflan.org.
Það er í kringum eitt ár síðan við byrjuðum. Það hefur verið nokkuð um mannabreytingar en við reynum að halda sömu liðaskipan, segir Þorvaldur en að sögn hans hafa rokkararnir aldrei keppt á móti. Það muni hugsanlega gerast á næsta ári. Við verðum að æfa aðeins lengur og þá tökum við jafnvel þátt í Carlsberg-mótinu.