Söngvarinn knái Justin Timberlake hefur aldrei verið mikið fyrir að gaspra um einkalíf sitt en í nýjasta hefti tímaritsins GQ kemur hann fram í opinskáu viðtali þar sem hann lætur allt flakka. Þar talar hann um samband sitt við poppprinssessuna Britney Spears, sem hann segir að hafi verið ást við fyrstu sýn.
„Ég lá kyllliflatur um leið og ég sá hana í fyrsta skiptið en hún sveik mig og það er erfitt að jafna sig á því.“ Justin segist þó óska henni velfarnaðar í lífinu en þau hafa ekki talast við síðan þau hættu saman. Einnig talar hann um samband sitt við Cameron Diaz en miklar sögusagnir hafa verið þess efnis að þau séu hætt saman. Justin segir að þau séu ennþá kærustupar en þau reyni að forðast ágang fjölmiðla eins og heitan eldinn.