Lífið

Í suðrænum blæ

Örvar Kristjánsson. Margir hafa beðið spenntir eftir nýrri plötu frá Örvari Kristjánssyni enda fjórtán ár síðan hann gaf síðast út plötu.
Örvar Kristjánsson. Margir hafa beðið spenntir eftir nýrri plötu frá Örvari Kristjánssyni enda fjórtán ár síðan hann gaf síðast út plötu.

Harmonikkuleikarinn Örvar Kristjánsson hefur sent frá sér nýja plötu sem heitir Í suðurlöndum. Ein fjórtán ár eru liðin frá því að nikkuleikarinn snjalli sendi síðast frá sér plötu.

"Platan hefur verið í bígerð í fjögur ár en hún er ekki hefðbundin harmonikkuplata því það er sungið í öllum lögum," segir Örvar sem syngur flest lögin sjálfur. "Svo eru nokkrir gestasöngvarar til dæmis Sigga Beinteins og Sigrún Eva svo einhverjir séu nefndir." Í suðurlöndum er, eins og nafnið gefur til kynna, öll með suðrænum blæ.

Örvar gaf síðast út plötuna Rósina. Hann segir vinnuna við nýju plötuna hafa verið talsvert öðruvísi. "Það er allt öðruvísi að gefa út plötu núna. Tæknin sem er notuð við upptökur hefur til dæmis breyst mikið," segir Örvar en hann gefur sjálfur út plötuna ásamt Jóhanni Birgissyni. Jóhann leikur þess utan inn á plötuna sem og þeir feðgar Grétar Örvarsson og Kristján Grétarsson, sonur og sonarsonur Örvars.

Síðustu fjórtán ár hefur Örvar verið með annan fótinn á Kanaríeyjum þar sem hann sér fyrir sér með því að þenja nikkuna.

"Yfir vetrartímann dvel ég á Kanarí-eyjum. Ég spilaði hjá Klöru í ­Cosm­os í tíu ár en fór svo yfir á norskan bar," segir Örvar og lofar Norðmennina upp í hástert. "Þetta er mikil harmonikkuþjóð en það er líka gaman að spila fyrir Íslendingana. Ég er eiginlega orðinn fastur punktur í tilverunni á Kanarí og ég kann alveg ofsalega vel við mig þar. Ég myndi ekki vilja breyta þessu mynstri."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×