Lífið

Stefnt að ásættanlegu risi

fjöllistahópurinn gelitin Aðeins þeir sem sjá hið ósýnilega geta gert hið ómögulega.
fjöllistahópurinn gelitin Aðeins þeir sem sjá hið ósýnilega geta gert hið ómögulega. MYND/Hörður

Listasýningin Hugris verður opnuð í Kling & Bang galleríi við Laugaveg annað kvöld en þar sýnir fjöllistahópurinn Gelitin afrakstur vinnu sinnar hér á landi en meðlimir hafa ferðast um landið undanfarna daga og aflað sér gagna, orku og andlegrar reynslu.

Listamennirnir munu flytja samnefndan gjörning og afhjúpa umgjörð sem þeir hafa skapað með kjöraðstæður í huga enda krefst gjörningurinn gífurlegrar einbeitingar.

Í Gelitin-hópnum eru fjórir listamenn frá Austurríki, þeir Tobias Urban, Wolfgang Gantner, Florian Reither og Ali Janka. Þeir hafa þekkst í tæp þrjátíu ár en starfað náið saman frá 1993 og verið tíðir gestir á mörgum af helstu söfnum og galleríum heims.

Ekki er vitað hversu lengi gjörningur þeirra mun standa en hann ku verða háður því að ásættanlegu risi verði náð enda greinir fréttatilkynning hópsins frá því að fyrrnefnt ris og kjarni þeirrar tilraunar sem Gelitin-hópurinn vinnur með feli í sér fullkomnun á ímyndunaraflinu þar sem ímyndun er kjarni þess að vera til. Ímyndunaraflið getur mótað veruleikann og aðeins þeir sem sjá hið ósýnilega geta gert hið ómögulega. Þeir sem segja að það sé ekki hægt ættu ekki að trufla þá sem eru að gera það.

Sýningin hefst kl. 19.30 á laugardagskvöldið. Kling & Bang gallerí er opið fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 14-18 og stendur sýning Gelitin yfir til 13. ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×