Lífið

Ætlum að ná gullplötu svo mamma verði ánægð

Hljómsveitin Dr. Mister & Mister Handsome gefur út sína fyrstu plötu hinn 20. júlí. Valgeir Ragnarsson settist niður með Ívari Erni Kolbeinssyni og Guðna Rúnari Gunnarssyni og spurði þá út í plötuna þeirra Dirty Slutty Hooker Money.

Hljómsveitin Dr. Mister & Mister Handsome var stofnuð í nóvember í fyrra. Hún hafði aðeins spilað einu sinni áður opinberlega er hún spilaði á Airwaves-hátíðinni í fyrra. Hlutirnir hafa gerst hratt hjá hljómsveitinni síðan þá. Við skrifuðum undir hjá Cod Music í vor og svo tókum við plötuna upp í apríl, segja þeir. Ég hef verið að semja raftónlist síðan ég var 16 ára og Guðni var alltaf svo hrifinn af tónlistinni, þannig að við ákváðum að stofna þessa hljómsveit, segir Ívar.

Snake hljómar ekki nógu velNafnið Dr. Mister byrjaði bara sem eitthvert djók á fylleríi, þetta var einhver húmor um þessa scooter-klúbba týpu og það sama má segja um Mr. Handsome, segir Ívar Örn sem gengur undir viðurnefninu Dr. Mister. Auk þeirra Ívars og Guðna er Egill Tómasson einnig meðlimur í bandinu, en hann hefur fengið viðurnefnið Snake. Blaðamanni lék forvitni á að vita hvers vegna Snake fær ekki að vera með í nafni hljómsveitarinnar.

Egill var ekki með okkur í upphafi, við ætluðum bara að vera tveir en síðan var hann bara svo graður yfir músíkinni og vildi endilega vera með. Hann reddaði húsnæði og byrjaði að spila með okkur og það virkaði bara svo vel, segir Guðni. Auk þess hljómar Dr. Mister & Mister Handsome og Snake bara illa, segja þeir báðir og hlæja. Við erum bara Dr. Mister og Mister Handsome, við erum andlitið á bandinu. Á meðan hann spilar á gítar syngjum við og forritum tónlistina. Svo lúkkum við líka bara svo skolli vel, bætir Guðni við.

Verða umdeildirPlötuumslagið sem sýnir vændiskonu liggja í rúmi og nafn plötunnar, Dirty Slutty Hooker Money, hafa vakið töluverða athygli. Skyldu einhverjar yfirlýsingar um líferni hljómsveitarmanna felast í þessu? Þetta er bara konseptið á plötunni, við erum að leika karaktera og þeir eru svona djöfulli harðir, segir Ívar ákveðinn. Við erum bara að leika leik sem er ótrúlega skemmtilegur, en við tökum hann alveg fullkomlega alvarlega, bætir Guðni við.

Þeir segjast báðir tilbúnir til þess að taka gagnrýni vegna innihalds og útlits plötunnar. Við búumst alveg eins við því að heyra eitthvað frá femínistakerlingum og einhverjum anti-eiturlyfjagúrúum, segja þeir um leið og blaðamaður spyr þá hvernig þeir muni svara slíkri gagnrýni? Þetta er bara list, það er flottur glans á þessu og þetta kemur bara mjög vel út, bara útúrgott klúbbastöff.

Samstarf við aðra listamennÁ plötunni nýtur hljómsveitin aðstoðar Þrastar og Krumma úr Mínus auk Svölu Björgvinsdóttur. Þau eru öll mjög góðir vinir okkar og þegar maður er með fullt af svona hæfileikaríku tónlistarfólki í kringum sig þá kemur ekkert annað til greina en að vinna með því, segir Ívar. Krummi syngur í tveimur lögum á plötunni og Svala í einu lagi, en það er lagið Was it all there was sem hún hafði áður sungið með hljómsveitinni Scope. Þröstur spilar á bassa og hann söng í einu lagi sem þó er ekki að finna á plötunni. Svala hefur spilað með okkur tvisvar sinnum á tónleikum og hún lætur okkur líta mun betur út, segja þeir.

Þeir Ívar og Guðni eru bjartsýnir á gengi plötunnar enda hafa þeir toppað hvern vinsældarlistann á fætur öðrum á undanförnum mánuðum. Það verður ágætis stærð á þessu, það er margt framundan, meðal annars stórir útgáfutónleikar og fleira sem mun koma í ljós seinna. Við ætlum að ná gullplötu því þá verða mömmur okkar svo ánægðar. Dirty Slutty Hooker Money er barnaplatan okkar og hún á eftir að fara í alla gjafapakka á næstunni, segja þeir hlæjandi.

valgeir@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×