Lífið

Kærkomin kvöldganga

Kirkjugarðurinn við Suðurgötu Skartar sínu fegursta.
Kirkjugarðurinn við Suðurgötu Skartar sínu fegursta. MYND/Hrönn

Á fallegu sumarkvöldi er tilvalið að rölta um miðbæjarsvæðið og ekki er verra að hafa leiðsögn og góðan félagsskap. Í kvöld býður Borgarbókasafn Reykjavíkur til kvöldgöngu um gamla kirkjugarðinn við Suðurgötu.

Skáldin og bókaverðirnir Einar Ólafsson og Jónína Óskarsdóttir sem leiða gönguna, en hún er hluti af göngudagskrá menningarstofnanna borgarinnar, Kvöldgöngur úr Kvosinni, sem nú er boðið upp á annað árið í röð. Í Hólavallagarði hvíla mörg skáld og ætla Jónína og Einar að leiða gesti um garðinn og staldra við hjá nokkrum þessara skálda, segja af þeim sögur og lesa úr verkum þeirra. Þessi skáld eru flest í eldri kantinum því lítið hefur verið jarðað í garðinum síðan á fyrri hluta síðustu aldar, útskýrir Einar Ólafsson og nefnir dæmi af skáldunum Þorsteini Erlingssyni, Hannesi Hafstein, Sigurði Breiðfjörð og Benedikt Gröndal. Svo eru tvö svokallaðra atómskáldanna sem einnig hvíla þarna, þeir Jón Óskar og Einar Bragi og þar komumst við kannski nær nútímaskáldunum, segir Einar.

Borgarbókasafnið hefur staðið fyrir gönguferðum með menningarívafi síðan 2004 og eru þær yfirleitt mjög vel sóttar. Erlendir gestir geta líka fengið að kynnast borginni í gegnum bókmenntirnar því skipulegar gönguferðir eru haldnar fyrir útlendinga á hverjum fimmtudegi.

Í kvöld verður lagt upp frá Grófinni, á milli aðalsafns Borgarbóksafns og Listasafns Reykjavíkur kl. 20 og tekur gangan um eina klukkustund. Ekki er þörf á að skrá sig og eru allir velkomnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×