Einkasýningu Sigtryggs Bergs Sigmarssonar The Curse of Sigtryggur Berg Sigmarsson lýkur á laugardaginn en hún hefur staðið yfir í sýningarýminu Gallerí Dvergur, í kjallara bakhúss að Grundarstíg 21 í Þingholtunum.
Sigtryggur sýnir ljósmyndir, texta- og vídeóverk en hann hefur einnig flutt gjörninga í tengslum við sýninguna. Sigtryggur Berg Sigmarsson stundaði myndlistarnám í Hannover, Þýskalandi hjá hljóðlistamanninum Ulrich Eller í Fachochschule Hannover Bildende Kunst og útskrifaðist þaðan með meistaragráðu árið 2005. Áður stundaði hann nám í sonologiu við Royal Konservatorium í Den Haag, Hollandi.
Sigtryggur hefur bæði sýnt verk sín og komið fram á hljómleikum afar víða, jafnt undir sínu eigin nafni sem og með hljóðtilrauna-dúettnum Stilluppsteypa.
Fyrr í júnímánuði tók Sigtryggur þátt í listahátíðinni Sonambiente í Berlín, þar sem hann sýndi vídeóverk, teikningar, ljósmyndir og texta, sem hann hefur verið að vinna með síðustu 10 árin og er sýningin í Gallerí Dvergi nokkurskonar smá útgáfa af þeirri sýningu.
Sýningin verður opin frá 17-19 á morgun og laugardag.