Innlent

Rætt um hverfi háhýsa við Laugarnes

Hugmyndir um nýtt hverfi, allt að sautján hæða íbúðabygginga við Laugarnes, eru nú til umræðu í borgarkerfinu. Framkvæmdir gætu hafist næsta vor.

Svæðið sem um ræðir blasir við vegfarendum sem aka um Sæbrautina en það nær frá Kassagerðinni og að útivistarsvæðinu í Laugarnesi. Byggingafélag Gylfa og Gunnars á nú lóðirnar en stór hluti þeirra var áður lengst af lagður undir starfsemi Tollvörugeymslunnar.

Byggingafélagið fékk Guðna Pálsson arkitekt til að hanna þarna nýtt hverfi, þar sem yrði blönduð byggð skrifstofu-, þjónustu- og íbúðahúsa. Hverfið yrði í stíl við Skúlagötuskipulagið þar sem áhersla er lögð á háhýsi.

Við útvistarsvæðið í Laugarnesi er gert ráð fyrir fjórum sautján hæða háum íbúðabyggingum. Vestan við Kassagerðina er hugmyndin að rísi sex háhýsi, tíu til fjórtán hæða, undir skrifstofu- og þjónustustarfsemi. Turnanir yrðu tengdir með tveggja hæða byggingu, þar sem yrðu meðal annars allt að tíu einkareknir veitingastaðir í stað hefðbundinna mötuneyta fyrirtækja. Guðni Pálsson arkitekt segir að þetta veitingatorg yrði opið utan skrifstofutíma þannig að þar yrði lifandi svæði einnig um helgar og á kvöldin.

Tillögurnar hafa verið ræddar í stjórn Faxaflóahafna enda er svæðið skilgreint sem hafnarsvæði. Þar fengu þær jákvæðar viðtökur á fundi í síðustu viku og ef þær færu á grænu ljósi í gegnum skipulagsferlið segir Guðni að framkvæmdir gætu hafist næsta vor. Fyrstu íbúar gætu flutt inn tveimur árum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×