Innlent

Betra að eiga en leigja

Tjaldvagnar Sala á tjaldvögnum er sífellt að aukast.
Tjaldvagnar Sala á tjaldvögnum er sífellt að aukast. MYND/Gunnar

Marga dreymir um það að eignast tjaldvagn og ferðast um landið og komast hjá kulda og bleytu sem oft fylgir tjaldútileigum. Fréttablaðið kannaði leiguverð á tjaldvögnum á fjórum stöðum um landið og reyndist verðið í þrem tilvikum vera 25.000 krónur fyrir vikuleigu og á einum staðnum var það 30.000 krónur.

Sum stéttarfélög bjóða einnig meðlimum sínum að leigja tjaldvagn, hjá Eflingu kostar vikuleigan 12.000 krónur og hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur kostar hún 16.500 krónur í sex daga en um hefðbundna fjögurra manna vagna er að ræða í báðum tilvikum.

Frá Seglagerðinni Ægi fengust þær upplýsingar að meðaltjaldvagn kosti á bilinu 650.000-700.000 krónur og að viðhald sé fremur lítið. Tjaldvagninn er tryggður á meðan keyrt er með hann og hann tengdur í bílinn. Eftir það þarf að tryggja hann sérstaklega sé þess óskað, til dæmis að tryggja hann fyrir bruna.

Ætla má að tjaldvagnar endist í um 20 ár ef vel er hugsað um þá og þeir geymdir inni yfir vetrartímann. Ef gert er ráð fyrir að vagninn kosti 700.000 og endist í 20 ár þá þarf að fara í 28 ferðir yfir þetta tímabil til þess að það borgi sig að eiga vagninn fremur en að leigja hann. Það gerir rúmlega eina ferð á ári en ætla má að flestar fjölskyldur fari að minnsta kosti í eina til tvær útileigur yfir sumartímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×