Innlent

Hálftímasigling til Vestmannaeyja

Elliði Vignisson
Elliði Vignisson

Ríkisstjórnin samþykkti í gær tillögu samgönguráðherra þess efnis að ferjusiglingar frá höfn í Bakkafjöru hæfust árið 2010. Rannsóknum á hafnarsvæðinu er ekki lokið ennþá. Tillagan, sem byggð er á rannsóknarvinnu starfshóps um samgöngubætur milli lands og Eyja, gerir ráð fyrir að ferjulægi í Bakkafjöru verði framtíðartenging milli lands og Eyja, en heildarkostnaður við uppbyggingu hafnarinnar og byggingar nýrrar ferju er talinn nema 3,8 til 4,5 milljörðum króna.

Eftir þessa breytingu styttist ferðatíminn til og frá Vestmannaeyjum niður í hálftíma en siglingin með Herjólfi tekur í tvær klukkustundir og 45 mínútur, miðað við eðlilegar aðstæður. Gert er ráð fyrir að siglingar með nýrri ferju hefjist árið 2010.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestamanneyjum, segir þessar breytingar skipta sköpum fyrir Vestmannaeyjar og Suðurland í heild sinni. Ég er ánægður með þessa viðurkenningu ríkisstjórnarinnar og samgönguráðherra, á þeim vaxtarmöguleika sem skiptir sköpum fyrir Vestmannaeyjar, sagði Elliði.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir áætlaðan smíðatíma nýrrar ferju vera 15 til 18 mánuði. Ljóst er nú að ekki verður ráðist í gerð jarðgangna en rannsóknir á þeim möguleika gáfu ekki tilefni til þess að þær væru raunhæfur kostur í stöðunni. Að teknu tilliti til þeirrar niðurstöðu starfshópsins að ekki sé réttlætanlegt að leggja til að farið verði í frekari rannsóknir varðandi gerð jarðgangna milli lands og Vestmannaeyja og þess hversu fýsilegur kostur ferjulægi í Bakkafjöru er miðað við þær rannsóknir sem unnar hafa verið, var ekkert því til fyrirstöðu að taka ákvörðun í málinu, sagði Sturla eftir að ákvörðun ríkisstjórnarinnar lá fyrir.

Samkvæmt áætlunum er reiknað með því að framkvæmdir hefjist á næsta ári en fram að þeim tíma sem tekur að koma siglingunum frá Bakkafjöru í gagnið verður leitast við að hámarka nýtingu á núverandi samgönguleiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×