Innlent

Viðskipti fyrir 47 milljarða

Hannes Smárason
Hannes Smárason

FL Group festi í gær kaup á 24,2 prósenta hlut í Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf., en seljendur eru að stærstum hluta Magnús Kristinsson og Kristinn Björnsson.

Alls nemur andvirði viðskiptanna 47 milljörðum króna en eftir kaupin á FL Group tæplega 26 prósenta hlut í bankanum.

Hannes Smárason, forstjóri FL Group, segir í fréttatilkynningu kaupin á hlutnum í bankanum vera í takt við þá stefnu félagsins að vera áhrifafjárfestir í félögum í vexti. Við hlökkum til samstarfsins við aðra hluthafa í bankanum og sjáum ýmis tækifæri til sóknar, bæði innanlands og á alþjóðlegum vettvangi.

Magnús Kristinsson segist skilja sáttur við Straum-Burðarás. Ég tel að það sé Straumi farsælast að brjóta upp það eigendamynstur sem verið hefur í félaginu og freista þess á þann veg að ná fram sáttum um áherslur og framtíðarsýn Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf.

Jafnframt tel ég og þeir sem mér tengjast mjög áhugavert að koma til liðs við FL Group hf., sem hefur á liðnum misserum sýnt frábæra hæfni til endurnýjunar, byggir á traustum stoðum kjarnastarfsemi og nýrri sýn við árangursmiðaðar fjárfestingar innan lands sem utan, er haft eftir Magnúsi í tilkynningu.

Greitt verður fyrir hlutinn með hlutabréfum í Kaupþingi banka, að verðmæti tólf milljarða, og FL Group, að verðmæti 35 milljarðar.

Talið er víst að með þessum kaupum komist á friður í eigendahópi Straums-Burðaráss. FL Group er nú stærsti einstaki hluthafinn í félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×