Innlent

Fjárbóndi drap dýrbíta og var laminn

Hundarnir voru skotnir á færi af Halldóri Guðmundssyni refaskyttu sem býr á bænum Holti, þegar til þeirra sást þar sem þeir réðust á lömb og drápu á landar­eign bæjarins. Alls lágu fimmtán lömb dauð eftir drápsæði hundanna.

Búfjáreigendum er heimilt, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins, að drepa hunda á landareign sinni sem slíkt æði hleypur í til að verja fé sitt og geta hundeigendur verið krafðir um skaðabætur ef hundar þeirra drepa búfé.

Eftir drápin gerði bróðir skyttunnar, Jóhann Guðmundsson sem einnig býr að Holti, lögreglunni á Blönduósi viðvart. Þá var haft samband við eiganda annars hundsins og hjálpaði sá við að hirða upp dauðu lömbin ásamt Jóhanni.

Lögregla tilkynnti drápin til Valdemars Ásgeirssonar, eiganda hins hundsins, sem býr að Auðkúlu I í Svínadal.

Jóhann Guðmundsson segir, í samtali við blaðamann Fréttablaðsins, að Valdemar hafa verið ansi heitt í hamsi þegar hann bar að bænum. Hann segir Valdemar hafa þrifið sig innan úr dyragættinni fyrirvaralaust og dregið sig niður tröppur á íbúðarhúsi sínu. Þar segir hann Valdemar hafa snúið sig niður og sest ofan á sig og látið nokkur vel valin orð falla.

Að þessu loknu segist Jóhann hafa vísað Valdemar á hræið, þar hafi hann aftur misst stjórn á sér og meðal annars hrint konu Jóhanns til jarðar með þeim afleiðingum að hún meiddist á hné.

Valdemar hefur aðra sögu að segja. Hann segist hafa ákveðið að gera sér ferð að Holti til að hirða um hræið af hundi sínum eftir að lögregla hafði samband við hann.

Hann segir að sér hafi verið meinað að taka hundinn sinn og hann hafi reiðst við það. Hann segir það ekki hafa komið til greina að skilja hundinn eftir, sem var að hans sögn mikið eftirlæti fjölskyldunnar, úti yfir nóttina. Hann neitar staðfastlega að hafa lagt hendur á Jóhann, heldur einungis tekið hann taki og: "lagt fallega niður á jörðina eins og er gert við óþekka krakka," eins og hann lýsir atburðarásinni sjálfur. Féllst Jóhann að því loknu á beiðni hans og voru hundshræin afhent Valdemar.

Jóhann kærði atvikið formlega til lögreglu síðastliðinn sunnudag. Hann segist vera marinn og með brákað rifbein, auk þess að kona sín hafi hlotið áðurnefnd meiðsli. Lögreglan á Blönduósi segir málið í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×