Innlent

Allir sjúklingarnir komu inn í einu

Það var í nógu að snúast á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað í gær, en þangað leituðu tuttugu og fimm sjúklingar vegna mengunarslyssins í sundlauginni á Eskifirði. Björn Magnússon yfirlæknir var í sumarleyfi þegar hann var kallaður til vinnu ásamt fjölda annarra starfsmanna á sjúkrahúsinu.

"Við fengum alla sjúklingana inn í einu þannig að það var mikið öngþveiti til að byrja með, en við lögðum áherslu á að flokka sjúklinga eftir því hverja við þyrftum að flytja og hverjum við gætum sinnt. Þeir sem við fluttum voru með súrefnisskort í blóði og við vildum flytja þá á stað sem hefur öndunarvél ef á þyrfti að halda. Sjúkrahúsið í Neskaupstað er því miður vanbúið hvað varðar slík tæki."

Á sjúkrahúsinu liggja nú inni nítján sjúklingar sem verða þar yfir nótt, en enginn er í mikilli hættu. Björn segir eitrun af völdum klórgass geta haft alvarleg áhrif á öndunarfæri, húð og augu. "Fjórir eða fimm voru með augnskaða en hann var sem betur fer ekki varanlegur. Starfsfólkið stóð sig ótrúlega vel og sinnti sínu starfi af miklum sóma."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×