Innlent

Áhorf á NFS jókst í maí

Fréttastöðin NFS sækir í sig veðrið samkvæmt könnun Gallup á sjónvarpsáhorfi landsmanna í maí. Tæp 34 prósent aðspurðra horfðu eitthvað á NFS á tímabilinu, en það er um tíu prósentustiga aukning frá því í mars. Á sama tíma minnkaði áhorf á Stöð 2 um sjö prósentustig, en Skjár Einn stendur nokkurn veginn í stað. Ríkissjónvarpið nær enn til flestra landsmanna en tæp 92 prósent horfðu eitthvað á stöðina í vikunni sem könnuð var, sem er svipað og hefur verið seinasta árið. Áhorf á Sirkus fer lítillega lækkandi frá því síðast.

Meðaláhorf á virkum dögum lækkar eða stendur í stað hjá öllum stöðvum nema NFS, og er það líklegast sumarveðrið sem veldur því að fólk horfir almennt minna á sjónvarp. Karlmenn horfa meira á NFS og Sjónvarpið en konurnar eru í meirihluta hvað varðar Stöð 2, Skjá Einn og Sirkus.

Í einstökum dagskrárliðum eru það fréttir Ríkissjónvarpsins sem hafa vinninginn með rúmlega 38 prósenta áhorf en Kastljós fylgir þar á eftir með um 28 prósent. Í erlendum þáttum eru Aðþrengdar eiginkonur vinsælastar, en 28 prósent þátttakenda horfðu á ævintýri þeirra í hverri viku. Á sameiginlegan fréttatíma Stöðvar 2 og NFS horfðu 21 prósent aðspurðra. Vinsælasti innlendi þátturinn er Út og suður sem sýndur er í Ríkissjónvarpinu, en hann mældist með um 27 prósenta áhorf.

Áhorf á sjónvarpsstöðvar eftir aldurshópum er nokkuð mismunandi eftir því hvaða stöð er um að ræða. Ríkissjónvarpið er áberandi vinsælast hjá áhorfendum 50 ára og eldri en dæmið snýst við þegar áhorf á Sirkus og Skjá Einn er mælt.

Könnunin var gerð vikuna 28. maí til 3. júní og náði til 1.500 Íslendinga á aldrinum 12 - 80 ára, völdum af handahófi úr þjóðskrá. 43 prósent aðspurðra tóku þátt í könnuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×