Innlent

Lækka lán og fresta framkvæmdum

aðgerðir til að draga úr þenslu Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, Geir H. Haarde forsætisráðherra og Árni Mathiesen fjármálaráðherra kynntu aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að draga úr þenslu eftir ríkisstjórnarfund í gær. Þetta mun róa vinnumarkaðinn. Það þarf að kæla hann aðeins niður, segir forsætis­ráðherra um áhrifin.
aðgerðir til að draga úr þenslu Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, Geir H. Haarde forsætisráðherra og Árni Mathiesen fjármálaráðherra kynntu aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að draga úr þenslu eftir ríkisstjórnarfund í gær. Þetta mun róa vinnumarkaðinn. Það þarf að kæla hann aðeins niður, segir forsætis­ráðherra um áhrifin. MYND/stefán

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að lækka lánshlutfall úr 90 prósentum í 80 prósent og hámarkslán Íbúðalánasjóðs úr 18 milljónum króna í 17 milljónir frá 1. júlí. Lán til íbúðakaupenda og húsbyggjenda verða takmörkuð þannig að sami aðili geti ekki átt samtímis fleiri en eina íbúð með lánum frá sjóðnum nema við sérstakar aðstæður.

Ríkisstjórnin hefur einnig ákveðið að fresta útboðum og nýjum framkvæmdum á vegum ríkisins og óskar eftir viðræðum við forystumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga og stærstu sveitarfélög landsins með það að markmiði að draga úr fjárfestingum þeirra á þessu ári og næsta ári. Stór samstarfsverkefni ríkisins og Reykjavíkur­borgar verða skoðuð sérstaklega.

"Allt sem hér verður boðið út lendir í frestun en ekki þar með sagt að hætt sé við framkvæmdir. Það er bara verið að ýta þeim á undan sér þangað til þróunin skýrist betur," segir Geir H. Haarde forsætisráðherra og bætir við að fyrst og fremst sé um vegaframkvæmdir að ræða og einhverjar húsbyggingar á vegum ríkisins. "Allt sem búið er að semja um mun halda áfram."

Geir telur að umfang aðgerðarinnar fari eftir því hvað komi út úr viðræðum við sveitarfélögin. Hjá ríkinu nemi framkvæmdirnar tæpum þremur milljörðum króna.

Árni Mathiesen fjármálaráðherra bendir á að umfang framkvæmda sveitarfélaganna á þessu ári sé nánast jafn mikið og hjá ríkinu þannig að "þátttaka sveitarfélaganna getur haft veruleg áhrif".

Hjá Íbúðalánasjóði er þegar byrjað að hægja þar á en þetta mun væntanlega flýta þeirri þróun," segir Geir og kveðst ekkert geta sagt um vaxtastigið en miðað við þróunina undanfarið sé líklegra að vextir hækki en lækki.

Geir telur ákvörðun ríkisstjórnarinnar ekki hafa bein áhrif á hátæknisjúkrahús og Sundabraut. Bygging Tónlistarhúss verði rædd við Reykjavíkur­borg og þá komi í ljós hvort hægt sé að fresta henni "en við höfum það mál ekki á valdi okkar," segir Geir.

"Þetta eru mjög tímanlegar aðgerðir í samhengi við samningana í síðustu viku," segir Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Guðni Ágústsson landbúnaðar­ráðherra telur að með þessu sé mikilvægt skref stigið á bremsuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×