Lífið

Seldi lag í hafnaboltaauglýsingu

Bela Tónlistarmaðurinn Bela hefur gefið út plötuna Hole and Corner.
Bela Tónlistarmaðurinn Bela hefur gefið út plötuna Hole and Corner.

Nýverið var fjallað um plötuna Hole and Corner með íslenska tónlistarmanninum Bela í bandaríska tónlistartímaritinu Billboard. Bela er listamannsnafn Baldvins Ring­sted sem fluttist til Glasgow í listnám á síðasta ári.

Á heimasíðu Billboard segir að á plötunni sé blandað saman gömlu rokki og nýju. Raddirnar séu viðkvæmar og slide-gítarleikurinn sé myrkur en fágaður. "Stundum hljómar röddin eins og John Mayer en bjartur og naumhyggjulegur gítarleikurinn í lögum eins og Stones minnir meira á Nick Drake," segir í umfjölluninni.

Útgáfusamningur í BretlandiÁður en Baldvin fór út hafði hann tekið upp töluvert af efni og fékk þar m.a. aðstoð Pálma Gunnarssonar, bassaleikara, og Birgis Hilmarssonar, söngvara Ampop, sem syngur bakraddir og spilar á ásláttarhljóðfæri í nokkrum lögum.

Þegar út var komið sendi Bela demó á nokkur útgáfufyrirtæki og Say Dirty Records hringdu til baka nánast samdægurs og buðu samning. Þegar sá var í höfn var hafist handa við að púsla saman plötu og Marcus MacKay (Snow Patrol, Reindeer Section, Zephers) var fenginn til aðstoðar, sem og ýmsir hljóðfæraleikarar. Söngkonan Gemma Hughes syngur jafnframt í tveimur lögum.

Upptökur á sjö stöðum

Baldvin segist hafa byrjað á plötunni snemma á síðasta ári. "Það er búið að taka hana upp á sjö stöðum allt í allt. Maður er að innheimta greiða hjá einhverjum og betla út greiða hjá öðrum," segir Baldvin, sem ólst upp við að hlusta á allskonar tónlist. Segir hann plötuna endurspegla það að miklu leyti. "Þetta er svolítið eins og ég ólst upp við hjá foreldrum mínum. Ég man þegar ég var lítill þá festust í manni hljómsveitir eins og Crosby og Stills og America og allt það dót. Svo fer maður seinna að hlusta á Nick Drake og eitthvað nýrra eins og Elliott Smith og Belle and Sebastian. Þessir listamenn hafa líka svolítið verið að taka úr þessu gamla," segir hann. Lag í auglýsinguHole and Corner var gefin út í Bretlandi þann 19. júní en fer þó ekki í almenna dreifingu fyrr en í lok júlí þar sem útgáfudeginum var frestað. Platan er ekki enn komin út í Bandaríkjunum en einhverjir Bandaríkjamenn sem búa á austurströndinni hafa þó hugsanlega heyrt lagið Jerome sem er að finna í hafnabolta­auglýsingu nokkurri.

Bela mun spila hér á landi í júlí og heldur meðal annars tónleika í verslun 12 Tóna og spilar á Rás 2.

Þeir sem vilja nálgast frekari upplýsingar um Bela er bent á heimasíðuna www.myspace.com/belamusicforpeople.freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×