Rokkhljómsveitin Langi Seli og Skuggarnir treður upp á Ölstofunni í kvöld. Að sögn Kormáks Geirharðssonar, trommuleikara sveitarinnar og verts á Ölstofunni, hefur lítið verið um tónleikahald á Ölstofunni fram til þessa. Þetta er alla vega í fyrsta skiptið sem alvöru rokk fær að heyrast, segir Kormákur.
Langi Seli og Skuggarnir hafa verið í pásu frá tónleikahaldi um árabil þar til fyrir skemmstu að þeir léku á Sirkus. Við erum smám saman að stækka tónleikastaðina og höldum okkur í spilaæfingu á meðan. Það er fínt að geta prófað þessi lög sem verða á plötunni, segir Kormákur. Tónleikarnir hefjast klukkan 22 í kvöld.