Innlent

Minni bjartsýni fyrirtækja

Á sjó Horfur eru bjartar í sjávarútvegi samkvæmt könnun IMG Gallup.
Á sjó Horfur eru bjartar í sjávarútvegi samkvæmt könnun IMG Gallup.

 Fimmtíu og sjö prósent svarenda í könnun IMG Gallup á stöðu og framtíðarhorfum í atvinnulífinu telja núverandi aðstæður góðar. Er það talsvert verri niðurstaða en í sambærilegri könnun sem gerð var í febrúar en þá töldu þrír af hverjum fjórum aðstæður góðar.

Þriðjungur svarenda telur að aðstæður verði verri eftir sex mánuði en sautján prósent að þær verði betri. Helmingur telur að aðstæður verði óbreyttar.

Könnunin leiðir í ljós miklar breytingar á stöðu og horfum eftir atvinnugreinum. Dregið hefur úr væntingum um aukna innlenda eftirspurn, en aukinnar erlendrar eftirspurnar er vænst. Þróun EBITDA-framlegðar (hagnaðar fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir) síðustu sex mánuði var áberandi best í sjávarútvegi auk þess sem horfur þar eru bjartastar.

Tæpur helmingur svarenda taldi gengisþróun krónunnar neikvæða, en rúmlega þrjátíu prósent að hún væri hagstæð. Níutíu og sjö prósent fyrirtækja í sjávarútvegi töldu gengisþróunina jákvæða.

Könnun IMG Gallup er gerð í samstarfi við Samtök atvinnulífsins, fjármálaráðuneytið og Seðlabankann og er birt ársfjórðungslega. Í úrtaki eru fjögur hundruð stærstu fyrirtæki landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×