Innlent

Hamingjan sanna er á Hólmavík

Frá hamingjudeginum á Hólmavík í fyrra.
Frá hamingjudeginum á Hólmavík í fyrra. MYND/af vef hamingjudags: www.hamingjudagur.is

Ísland er besta land til búsetu í öllum heiminum, að því er breska blaðið The Guardian hefur eftir nýlegri þarlendri rannsókn. Íslendingar eru hamingjusamasta fólk í heimi og Hólmvíkingar eru hamingjusömustu Íslendingarnir.

Það hefur ekki verið gerð vísindaleg úttekt á því hvar hamingjusamasta fólkið býr á Íslandi, en hvergi er hamingjunni líklega hampað og fagnað eins og á gert verður á Hólmavík um helgina. Þar eru hamingjudagar haldnir í annað sinn, undir yfirskriftinni "hamingjan sanna". Þar getur fólk ræktað hamingjuna í leik, söng og dansi og börn geta lært töfra og galdra. Einnig verður spurningakeppni á vegum Sauðfjársetursins á Ströndum og margt fleira á dagskránni fyrir þá sem vilja eltast við hamingjuna sönnu.

Íslendingar eru hamingjusamasta þjóð í heimi, þrátt fyrir að búa í dýrasta landi í heimi, en fast á hæla okkur fylgja hinir síglöðu Ástralar. Rannsóknin miðar að því að meta lífsgæði út frá fleiri þáttum en ríkidæmi og þjóðarframleiðslu. Þannig eru meðalævilíkur og menntunarstig og margir fleiri þættir teknir inn í myndina. Rannsóknin sýnir að ýmsar fátækar þjóðir, eins og Mexíkóar og Nígeríumenn, eru hamingjusamari en ríkari og þróaðri þjóðir. Hinir fúlustu í heimi, að mati vísindamannanna, munu vera Rússar, Úkraínumenn, Rúmenar og Búlgarar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×